Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 15. október 2021 11:08
Hafliði Breiðfjörð
Heimild: KSÍ 
Norðurlöndin vilja halda EM 2025 saman - ekki hægt að spila á Íslandi
Ekki er hægt að spila leiki á EM kvenna á Laugardalsvelli því hann uppfyllir ekki skilyrði.
Ekki er hægt að spila leiki á EM kvenna á Laugardalsvelli því hann uppfyllir ekki skilyrði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ birti í dag tilkynningu á vef sínum þess efnis að norðurlöndin hafi ákveðið að sækja um að halda EM kvenna 2025 en þó verður ekki hægt að spila leiki á Íslandi og í Færeyjum þar sem enginn leikvangur í löndunum uppfyllir skilyrði UEFA.

Ef norðurlöndin hreppa mótið munu leikirnir því fara fram í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð sem myndu halda mótið með stuðningi Íslands og Færeyja.

Tilkynning KSÍ:
Síðustu fjögur árin hafa knattspyrnusamböndin á Norðurlöndunum unnið náið saman að sameiginlegri umsókn um að halda lokakeppni stórmóts landsliða og hafa nú ákveðið að sækja um að halda lokakeppni EM kvenna 2025.

Frá árinu 2018 hafa öll knattspyrnusambönd Norðurlandanna – Danmörk, Finnland, Færeyjar, Ísland, Noregur og Svíþjóð – unnið saman að öflugri umsókn um að halda lokakeppni HM kvenna 2027. Á sama tíma hefur Knattspyrnusamband Danmerkur unnið að metnaðarfullri umsókn um að halda EM kvenna 2025.

Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa nú ákveðið að sækja um að halda EM kvenna 2025, með stuðningi Knattspyrnusambanda Færeyja og Íslands. Ljóst er að leikir í keppninni geta ekki farið fram í Færeyjum eða á Íslandi þar sem ekki eru til staðar leikvangar sem uppfylla sett skilyrði. Öll knattspyrnusamböndin eru viss um að norrænt samstarf geti skapað ógleymanlega lokakeppni sem fari fram eftir fjögur ár.

”Við höfum unnið náið saman síðustu fjögur árin og erum öll með metnaðarfullar hugmyndir um þróun kvennaknattspyrnu. Við erum viss um að EM kvenna 2025 á Norðurlöndum verði frábær viðburður fyrir kvennaknattspyrnu – fyrir stuðningsmenn, leikmenn, aðra hagsmunaaðila og fyrir UEFA.”

Norðurlöndin hafa skuldbundið sig til að halda viðburð í hæsta gæðaflokki sem heldur á lofti gildum jafnréttis, byggir upp og þróar knattspyrnuna, eykur þátttöku og skilur eftir sig arfleifð fyrir Norðurlöndin og gjörvalla Evrópu.

Knattspyrnusambönd Norðurlandanna hafa rætt hvaða lokakeppni þau vilja sækja um og niðurstaðan er að allur þungi verður lagður í umsókn um lokakeppni EM kvenna 2025. Formenn sambandanna bíða jafnframt frekari upplýsinga varðandi umsóknir um lokakeppni HM kvenna 2027.

Síðustu ár hafa öll samböndin skoðað vel möguleika á leikstöðum og leikvöngum, æfingasvæðum og liðshótelum, sem og aðra nauðsynlega aðstöðu til að fá sem besta heildarmynd af því hvað þarf til að halda EM kvenna 2025.

Við þetta má bæta að fimm Norðurlandaþjóðir (Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð) hafa tryggt sér sæti í lokakeppni EM 2022 sem fram fer á Englandi, sem sýnir vel íþróttalega stöðu norrænu landsliðanna.

Norðurlöndin munu setja saman öfluga umsókn um lokakeppni EM kvenna 2025. Framkvæmdastjórn UEFA mun ákveða hvar mótið verður haldið á fundi sínum í desember 2022.
Athugasemdir
banner
banner
banner