Naby Keita, fyrrum leikmaður Liverpool, mun ekki spila meira með Werder Bremen á yfirstandandi tímabili.
Keita er ekki meiddur; hann hefur verið settur til hliðar af félaginu eftir að hann neitaði að mæta í leik. Hann ákvað að ferðast ekki með liðinu í síðasta leik gegn Bayer Leverkusen eftir að hann frétti að hann ætti að vera á bekknum.
„Hegðun Naby verður ekki liðin hjá félaginu. Með hegðun sinni þá brást hann liðinu og setti sjálfan sig á hærri stall en liðið. Það má ekki gerast," segir Clemens Fritz, yfirmaður fótboltamála hjá Werder Bremen.
Keita fékk einnig stóra sekt frá félaginu og mun hann ekki æfa með liðinu fyrir síðustu leiki tímabilsins. Hann fær þá ekki að vera innan búningsklefans á næstu vikum.
Keita er 29 ára gamall og var á mála hjá Liverpool frá 2018 til 2023. Hann gekk í raðir Werder Bremen síðasta sumar og hefur aðeins spilað fimm leiki á tímabilinu en hann hefur verið mikið meiddur.
Athugasemdir