fim 16. maí 2019 14:36
Elvar Geir Magnússon
Loftus-Cheek spilar líklega ekki aftur á árinu 2019
Ruben Loftus-Cheek.
Ruben Loftus-Cheek.
Mynd: Getty Images
The Sun segir að Ruben Loftus-Cheek spili líklega ekki meira á árinu 2019 eftir að hann meiddist illa á hásin í æfingaleik í Bandaríkjunum.

Þessi 23 ára leikmaður verður frá í að minnsta kosti sex mánuði.

Þetta er áfall fyrir Chelsea en Loftus-Cheek verður ekki með liðinu í úrslitaleik Evrópudeildarinnar, gegn Arsenal í Bakú síðar í þessum mánuði.

Þá var Loftus-Cheek ekki valinn í landsliðshóp Englands fyrir Þjóðadeildina vegna meiðsla sinna.

Þessi öflugi miðjumaður meiddist í 3-0 sigri Chelsea í æfingaleik gegn New England Revolution í Bandaríkjunum.

Maurizio Sarri, stjóri Chelsea, veitti engin viðtöl í Bandaríkjaferðinni en hann hafði áður gagnrýnt þá ákvörðun félagsins að ferðast í þetta verkefni.

Loftus-Cheek fékk aðstoð sjúkraþjálfara við að yfirgefa völlinn og sást síðan yfirgefa leikvanginn á hækjum og í hlífðarskó.
Athugasemdir
banner
banner
banner