Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 16. október 2021 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sagður vera íslenski Haaland
Andri Lucas Guðjohnsen.
Andri Lucas Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haaland er einn besti sóknarmaður í heimi.
Haaland er einn besti sóknarmaður í heimi.
Mynd: EPA
Mjög spennandi leikmaður.
Mjög spennandi leikmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hinn 19 ára gamli Andri Lucas Guðjohnsen hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með íslenska landsliðinu upp á síðkastið.

Andri Lucas er á mála hjá spænska stórveldinu Real Madrid. Þar spilar hann í varaliðinu undir stjórn goðsagnarinnar Raul. Sjálfur var Raul mikill markaskorari fyrir Real Madrid á sínum ferli.

Andri er búinn að skora tvö landsliðsmörk í fjórum A-landsleikjum þrátt fyrir að hafa ekki enn byrjað landsleik. Þetta er mjög spennandi leikmaður.

Það eru ekki bara Íslendingar og íslenskir fjölmiðlar sem eru spenntir fyrir honum.

Í spænska fjölmiðlinum AS er honum líkt við Erling Braut Haaland, sóknarmann Borussia Dortmund í Þýskalandi. Haaland er norskur og hefur raðað inn mörkunum í Þýskalandi. Í grein AS segir að Real Madrid hafi áhuga á því að kaupa Haaland, en nú þegar sé leikmaður í herbúðum félagsins sem sé farinn að vekja áhuga fólks og þykir svipaður Haaland. Sá leikmaður sé Andri Lucas.

„Andri er hreinræktuð nía sem notar alla sína 189 sentímetra í leikstíl sínum. Þjálfarar hjá Real Madrid viðurkenna að hann sé óslípaður demantur, en þeir telja að hann búi yfir einu sem ekki sé hægt að kenna; auga fyrir markinu," segir í greininni.

Andri Lucas er í Meistaradeildarhópi Real Madrid og ekki er útilokað að hann fái tækifæri með aðalliðinu á þessu tímabili. Hann er fyrir aftan Karim Benzema, Luka Jovic og Mariano í goggunarröðinni. AS vill þó meina að Íslendingurinn sé mögulega fyrir framan Mariano hjá Carlo Ancelotti.

Andri hefur verið að stíga upp úr erfiðum meiðslum og ljóst er að hann á mjög spennandi framtíð, ef hann nær að haldast heill.

Líka skrifað um hann í enskum fjölmiðlum
Það er ekki bara á Spáni þar sem Andri Lucas hefur vakið athygli. Það er einnig skrifað um hann hjá Express sem er nokkuð stór fjölmiðill á Englandi.

Þar er einnig skrifað um líkindi hans við Haaland, sem er einn besti sóknarmaður í heimi í dag.

„Guðjohnsen gat spilað fyrir enska landsliðið þar sem hann fæddist í London á meðan Eiður Smári, faðir hans, var að spila fyrir Chelsea. Hann gat einnig spilað fyrir Spán þar sem hann ólst upp þar. En hann valdi að spila fyrir fámennu þjóðina í Skandinavíu líkt og aðrir fjölskyldumeðlimir," segir í grein Express.

Tveir af efnilegustu leikmönnum Íslands um þessar mundir fæddust í Englandi; Andri Lucas og Ísak Bergmann Jóhannesson. Þeir völdu hins vegar báðir að spila fyrir Ísland - sem betur fer - líkt og feður þeirra, Eiður Smári og Jóhannes Karl Guðjónsson.

Faðir Andra, Eiður Smári, er einn af bestu fótboltamönnum í sögu Íslands. Hann er núna aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla. Eldri bróðir Andra, Sveinn Aron, er einnig í A-landsliðinu og yngri bróðir hans, Daníel Tristan, er einnig á mála hjá Real Madrid. Það er líklega ekki mjög langt í að Daníel Tristan, sem er 15 ára, spili fyrir A-landsliðið. Hann er mjög efnilegur.


Athugasemdir
banner
banner
banner