Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 17. janúar 2023 13:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Guðjón Orri missir af öllu tímabilinu - „Hefði þurft að fara í aðgerð síðasta sumar"
Varði mark ÍBV í nítján leikjum á síðasta tímabili.
Varði mark ÍBV í nítján leikjum á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðjón Orri Sigurjónsson, markvörður ÍBV, verður að öllum líkindum ekkert með liðinu á komandi tímabili. Guðjón fór í aðgerð á öxl fyrr í þessum mánuði og segist horfa fram á fjarveru út þetta tímabil.

Athygli var vakin á því í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin að Guðjón væri búinn í aðgerð og hann staðfesti tíðindin við Fótbolta.net í dag.

„Ég var í aðgerð á öxl fyrir hálfum mánuði síðan. Þetta eru meiðsli frá því í sumar. Ég fór í myndatöku í sumar sem leiddi í ljós að ég var með rifna sin í öxlinni," sagði Guðjón.

„Ég var sprautaður í öxlina til að halda mér gangangdi, sem reyndust vera mistök. Ég var orðinn slæmur aftur í öxlinni eftir tímabilið og var því sendur í aðra myndatöku og þar kom í ljós að sinin var alveg slitin, ásamt því að önnur sin var trosnuð."

Guðjón, sem er þrítugur og sneri til ÍBV fyrir síðasta tímabil eftir tíma á Selfossi, í Stjörnunni og hjá KR, varði mark liðsins í átján deildarleikjum á síðasta tímabili og í eina bikarleik liðsins. Hann kom inn í markið í sjöttu umferð eftir að Halldór Páll Geirsson hafði varið mark liðsins í fyrstu leikjunum.

„Eftir á að hyggja hefði ég þurft að fara í aðgerð í sumar, en þess í stað er öxlin mikið verr farin og er ég að horfa á fjarveru út þetta tímabil," bætti Guðjón við.

Í lok síðasta tímabils varði Jón Kristinn Elíasson mark liðsins og framlengdi hann samning sinn við ÍBV á dögunum. ÍBV hefur verið sterklega orðað við Guy Smit hjá Val og eru miklar líkur á því að hann komi á láni út komandi tímabil.
Athugasemdir
banner
banner