Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   fös 17. mars 2023 08:00
Elvar Geir Magnússon
Flúði stríðið og ætlar að skjóta Man Utd úr leik í bikarnum
Manor Solomon.
Manor Solomon.
Mynd: Getty Images
Mynd: Fulham
„Ég vaknaði við sprengjulæti og sírenuvæl. Þetta var eins og að vera skyndilega í miðri bíómynd," segir Manor Solomon, ísraelskur sóknarmaður Fulham, sem bjó í Kænugarði í Úkraínu þegar innrás Rússlands í landið magnaðist.

„Það greip um sig geðshræring því stríðið var hafið og fólk vissi ekki hvað ætti að gera. Ég vissi að ég þyrfti að komast í burtu því ástandið átti eftir að versna."

Solomon var leikmaður Shaktar Donetsk í Úkraínu en spilar núna fyrir Fulham, þar sem hann hefur verið heitur upp við mark andstæðingana og vonast til þess að skjóta Manchester United úr leik í enska bikarnum á sunnudaginn.

Fyrir þrettán mánuðum flúði hann Úkraínu, pakkaði dótinu sínu í ferðatöskur og komst að landamærum Póllands eftir sautján tíma ferðalag. Hann þurfti svo að bíða í tíu klukkutíma til viðbótar í miklu frosti.

„Matur og vatn voru að klárast þegar mér tókst að komast yfir landamærin með hjálp ísraelskra diplómata. Ég veit ekki hvernig þetta hefði endað ef ekki hefði verið fyrir þá. Hjarta mitt er með fólkinu sem er enn í Úkraínu."

Solomon samdi við Fulham síðasta sumar, á eins árs bráðabirgðasamningi frá Shaktar. Hann nýtti sér nýjar reglur FIFA sem leyfa leikmönnum í Úkraínu að ógilda samninga sína.

„Það yrði draumur að spila með Fulham á Wembley," segir Solomon sem hefur verið heitur á tímabilinu síðan hann náði sér af meiðslum. Hann skoraði fimm mörk í fimm leikjum frá 11. febrúar til 6. mars og fróðlegt að sjá hvort hann verði á skotskónum á sunnudag.


Athugasemdir
banner
banner
banner