Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   lau 17. apríl 2021 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rúnar vill frekar þrefalda umferð - Var ekki spurður
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var í löngu viðtali í útvarpsþættinum Fótbolta.net um síðustu helgi.

Rúnar var spurður út í fyrirkomulag í Pepsi Max-deildinni. Öll tólf félögin í Pepsi Max-deild karla eru sammála um að styðja tillögu starfshóps KSÍ um breytingu á fyrirkomulagi efstu deildar. Tillagan var felld á síðasta ársþingi KSÍ en stefnan er að taka tillöguna aftur fyrir á næsta ársþingi.

Forráðamenn allra félaga skrifuðu undir yfirlýsingu þess efnis að sýna tillögunni stuðning.

Tillagan gengur út á fjölgun leikja með því fyrirkomulagi að eftir tvöfalda umferð í tólf liða deild verði deildin tvískipt. Efstu sex liðin mætast aftur innbyrðis og neðri sex einnig.

Rúnar segist frekar vilja þrefalda umferð, hann hafi ekki verið spurður af sínum yfirmönnum út í þetta.

„Ég hefði persónulega viljað spila þrjár umferðir frekar; fækka í tíu og spila þrjár umferðir eða halda áfram í tólf liðum og spila þrjár umferðir," sagði Rúnar.

„Þetta er rosalega gaman fyrir liðin sem eru í topp sex. Ég var í þessu í Belgíu og var í neðri hlutanum með mitt lið. Það var ömurlegt. Það voru engir áhorfendur, það var engin stemning og ekkert gaman að mæta í leikina því það var að engu að keppa. Þetta er aðeins öðruvísi hérna en ég er á móti þessu."

„Þetta verður spennandi fyrir áhorfendur og það koma fleiri peningar inn en það er enginn að fara mæta á leik liða í sjöunda og áttunda sæti í neðri hlutanum í september," sagði Rúnar sem vill hafa þetta hefðbundið en hann er þó til í að prófa þetta fyrirkomulag og sjá hvað verður úr því. Líklegt yrði að KR yrði í efri hlutanum og myndi þurfa að mæta öðrum liðum úr topp sex innbyrðis, og það yrðu fleiri erfiðir leikir í baráttunni um titilinn og Evrópusæti.

„Það er alveg vert að prófa þetta. Ég var ekkert spurður. Það er eitthvað sem mér finnst stundum ábótavant í þessu ferli, í breytingum á hinu og þessu. Með fullri virðingu fyrir formönnum og forystumönnum félaga þá eru fæstir af þeim sem hafa leikið leikinn. Þetta eru menn sem kunna að fara með peninga, safna peningum og stýra félögunum. Þetta eru ofboðslega góðir menn í flestöllum félögum en þeir hafa ekki allir vit á því hvað gerist á vellinum. Það er alltof sjaldan leitað til okkar þjálfara, meira að segja knattspyrnusambandið mætti oft kalla okkur á fundi til að ræða málin."

„Það var reyndar gert hitt í fyrra að forystumenn og þjálfarar voru kallaðir á fund til að ræða þessi mál; fjölgun í deild og allt það. Menn voru bara diskútera. Það þarf að skapa umræður með þeim sem hafa vit á þessu og eru að stýra liðunum. Það mætti oft kalla til eitthvað af þessum þjálfurum til að ræða málin."

Hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn í heild sinni hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Alfons, Rúnar Kristins og Meistaradeildin
Athugasemdir
banner
banner
banner