Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   lau 17. ágúst 2019 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Tottenham réttu megin við reglubreytingarnar
Mynd: Getty Images
Manchester City gerði 2-2 jafntefli við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Gabriel Jesus hélt að hann hefði skorað sigurmarkið í uppbótartíma en markið ekki dæmt gilt því boltinn hafði viðkomu í hendi Aymeric Laporte í aðdraganda marksins.

Samkvæmt nýjum reglum ber að ógilda mark ef boltinn fer í hendi leikmanns, hvort sem það er viljaverk eða ekki. Þessar reglur eru alþjóðlegar, þær voru ákveðnar á síðasta tímabili og tóku gildi 1. júní.

Þessar reglur voru settar til að koma í veg fyrir að ákveðin atvik gætu komið upp, eins og gerðist í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í vor. Þar mættust einmitt Man City og Tottenham á Etihad leikvanginum.

Fernando Llorente skoraði þá markið sem hleypti Tottenham áfram í undanúrslitin. Markið var dæmt gilt eftir að hafa verið skoðað með myndbandstækni, þrátt fyrir að Llorente hafi í raun skorað með olnboganum.

Olnboginn var upp við líkamann og var þetta óviljaverk þar sem boltinn var nýlega búinn að breyta um stefnu. Það var erfitt að sjá að boltinn hafi farið í handlegg Llorente og mat dómarinn það svo að handleggurinn væri partur af líkamanum og leyfði markinu að standa.

Til gamans má geta að Man City skoraði í uppbótartíma í þeim leik og hefði komist áfram, en myndbandstæknin var notuð til að dæma markið af.
Athugasemdir
banner
banner
banner