„Þetta var hörku skemmtilegur leikur," sagði Hallgrímur Jónasson þjálfari KA eftir 3-3 jafntefli við Aftureldingu.
Lestu um leikinn: Afturelding 3 - 3 KA
„Mér fannst við byrja leikinn mjög vel, skorum mark, og skjótum tvisvar í slá. Við erum óheppnir að vera ekki í meiri forystu. Svo fannst mér síðustu tíu mínúturnar í fyrri hálfleik, Afturelding vera sterkari en við. Seinni hálfleikurinn byrjar ekki vel, þeir jafna. Við komumst þrisvar yfir í leiknum, og þeirra mörk eru stórglæsilega. Þeir skora með skalla aftur fyrir sig sem fer yfir Stubb, svo er náttúrulega bara rosalega grátlegt þriðja markið. Við erum ellefu á okkar vallarhelmingi, þeir taka miðjuna og einhvern vegin komast þeir aleinir upp hornið og gefa fyrir og skalla hann inn. Ég á eftir að sjá þetta aftur, hvort menn halda að þetta sé komið, eða hvort þetta sé einbeitingarleysi. En þeir eiga ekki að komast í færi þegar við erum ellefu á okkar vallarhelmingi, eftir miðju," sagði Hallgrímur.
KA byrjaði leikinn gríðarlega vel, og hefðu getað skorað meira en þetta eina mark sem þeir gerðu í fyrri hálfleik.
„Við byrjum mjög vel, við skorum þrjú mörk og skjótum tvisvar í slá. Meira segja fáum við mjög gott færi í lokin þegar 20 sekúndur eru eftir, spilum mjög vel og Dagur er í dauðafæri. Það var mjög gott, og byrjunin á leiknum var bara virkilega sterk. Svo fannst mér við aðeins slaka á, sem gerist kannski þegar þú átt að vera 2, 3-0 yfir en það gengur ekki. Eitt mark er hættuleg staða, og mér fannst Afturelding koma vel inn í seinni hluta fyrri hálfleiks, og áttu bara skilið að jafna þegar þeir gerðu það í seinni," sagði Hallgrímur.
Í þeim þremur leikjum sem KA á eftir fyrir skiptingu, mæta þeir Fram, Stjörnunni og Vestra. Það eru liðin fjögur sem eru í sæti 4-6.
„Ég held þetta verði spennandi fram að síðasta leik. Við verðum bara að halda áfram að gera okkar hluti vel, ég sá af stórum hluta í dag góða frammistöðu. Það eru smá kaflar sem mér fannst við ekki líta alveg nógu vel sem lið. Við skorum mörk og það er það sem okkur hefur vantað, þannig eigum við ekki bara að hafa jákvæða hattinn á og segja að við séum ánægðir með að hafa skorað þrjú mörk, tvö sláarskot og skapað fullt. Við tökum það með okkur á móti Fram," sagði Hallgrímur.