Draumur Íslands um að komast á HM er úti eftir að hafa tapaði fyrir Úkraínu, 2-0, í lokaleik D-riðils í Varsjá í Póllandi í kvöld.
Eins og við var að búast var byrjun leiksins mjög spennuþrungin enda allt undir hjá báðum þjóðum.
Ísland náði að halda ágætlega í boltann í byrjun leiks, en Vladyslav Vanat, framherji Girona, var að halda smá usla og átti nokkrar tilraunir sem voru þó ekki að valda íslenska liðinu einhverjum svakalegum vandræðum.
Allt var enn í járnum eftir tuttugu mínútna leik en Úkraínumenn kannski örlítið yfir þó Ísland hafi verið aðeins meira með boltann.
Það skall hurð nærri hælum á 23. mínútu. Ísland tapaði boltanum og keyrðu Úkraínumenn í skyndisókn. Yukhym Konoplya færði boltann út á hægri á Viktor Tsygankov sem tók klassíska Arjen Robben-hlaupið, skar sig yfir á vinstri fótinn og hamraði boltanum í þverslá.
Áfram hélt Vanat að vera Íslendingum óþægilegur með góðum hlaupum. Hann tók eitt slíkt inn að vörninni, fann síðan Oleksandr Zubkov fyrir utan teiginn sem hamraði skoti sínu yfir markið.
Nokkrum mínútum síðar fékk Zubkov boltann við vítateigslínuna en aftur setti hann skotið yfir. Erfiðar mínútur fyrir íslenska liðið þegar aðeins rúmur hálftími var liðinn.
Síðustu mínútur hálfleiksins voru Úkraínumenn að eiga nokkur hálf færi en ekki að ógna markinu af einhverju viti og þá komu varnarmenn til bjargar nokkrum sinnum í tæka tíð.
Markalaust í hálfleik en það lifnaði aðeins meira yfir leiknum snemma í þeim síðari.
Brynjólfur náði að ógna marki með skalla eftir hornspyrnu en Trubin varði í markinu. Mátti alveg finna að spennustigið var áfram í skýjunum, en Ísland vissi að eitt mark myndi létta andrúmsloftið gríðarlega.
Aftur kom óþægilegur kafli um miðjan síðari hálfleikinn þar sem Úkraínumenn héldu vel í boltann og ógnuðu marki nokkrum sinnum en Elías Rafn Ólafsson var traustur í markinu.
Jóhann Berg Guðmundsson var kynntur til leiks í sínum 101. landsleik en hann kom inn fyrir Brynjólf. Hugsun Arnars þarna var að færa Jóhann úti hægra megin, Albert upp á topp og Jón Dag á vinstri og fá aðeins öðruvísi dýnamík í liðið.
Tæpum fimmtán mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma átti Anatoliy Trubin einhverja rosalegustu markvörslu síðari ára er Guðlaugur Victor átti skalla eftir aukaspyrnu Alberts en viðbrögð Trubin voru í sérflokki. Mark sem hefði drepið leikinn en Trubin hélt sínum mönnum á lífi.
Á 82. mínútu átti Elías tvöfalda markvörslu og var hún alls ekki síðri en þessi hjá Trubin. Hann varði skalla frá Roman Yeremchuk og síðan frákastið í horn. Stanslaus pressa og landsmenn farnir að naga neglurnar úr stressi.
Það var ekki spurning hvort markið kæmi heldur hvenær og það kom hjá Úkraínumönnum fyrir rest aðeins stuttu síðar eftir hornspyrnu sem var flikkuð á fjær þar sem Oleksandr Zubkov var aleinn og náði að stanga boltann í netið.
Ótrúlega súrt eftir að hafa varist hetjulega í rúmar 80 mínútur.
Eftir markið fór Ísland að pressa á Úkraínu. Logi Tómasson og Daníel Tristan Guðjohnsen komu inn fyrir Jón Dag og Mikael Egil, og var allt reynt til að sækja stigið.
Daníel Tristan átti skot á 89. mínútu er boltinn datt fyrir hann í teignum en hann náði ekki krafti í skotið og var Trubin nokkuð örugglega með það.
Úkraínumenn kláruðu dæmið í uppbótartíma. Oleksii Hutsuliak átti skot sem fór af varnarmanni og í netið. Elías Rafn var farinn á eftir skotinu áður en hann breytti um stefnu.
Niðurstaðan 2-0 tap gegn Úkraínu sem þýðir að Ísland er úr leik á meðan Úkraína fer í umspilið á næsta ári.
Athugasemdir



