Jordon Ibe, fyrrum vonarstjarna Liverpool, er búinn að skipta um félag. Hann er kominn til Búlgaríu þar sem hann mun leika fyrir Lokomotiv Sofia.
Ibe þótti gífurlega efnilegur kantmaður á táningsárunum og var fastamaður í yngri landsliðum Englands, auk þess að vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu hjá Liverpool tímabilið 2015-16.
Ibe lék einnig með Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni en lenti í alvarlegum andlegum erfiðleikum og hefur lítið spilað fótbolta síðustu fimm ár.
Hann opnaði sig um baráttu sína við þunglyndi og byrjaði aftur að spila fótbolta fyrir utandeildarlið Hayes & Yeading United og Hungerford Town fyrr á þessu ári.
Það eru aðeins 17 dagar síðan hann gekk til liðs við utandeildarlið Sittingbourne en Lokomotiv setti sig í samband á dögunum og ákvað Ibe að stökkva á tækifærið.
Ibe gerir rúmlega eins og hálfs árs samning við Lokomotiv, sem gildir til sumarsins 2027, og segir félagið hann vera tilbúinn til að endurlífga fótboltaferilinn sinn með liðinu.
„Eftir nokkur erfið tímabil er Jordon tilbúinn til að endurlífga ferilinn og við höfum fulla trú á því að honum muni takast það hér hjá Lokomotiv," segir meðal annars í yfirlýsingu frá félaginu.
Ibe var aðeins táningur þegar hann lék fyrir Liverpool. Tímabilið 2015-16 tók hann þátt í 41 leik með Liverpool, áður en Bournemouth keypti hann í sínar raðir fyrir metfé á þeim tíma - 15 milljónir punda.
05.02.2025 11:51
Munið þið eftir Jordon Ibe?
Athugasemdir




