Arsenal og Man Utd vilja Adeyemi - Stórveldi á eftir miðjumanni AZ - PSG vill Vinícius á frjálsri sölu 2027 - Newcastle skoðar Trafford
   sun 16. nóvember 2025 16:33
Brynjar Ingi Erluson
Hafrún Rakel hetja Bröndby - Elísa Lana lagði upp í lokaumferðinni
Kvenaboltinn
Hafrún Rakel skoraði sigurmark Bröndby
Hafrún Rakel skoraði sigurmark Bröndby
Mynd: Gleðjum Saman
Elísa Lana lagði upp í lokaumferð sænsku deildarinnar
Elísa Lana lagði upp í lokaumferð sænsku deildarinnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hafrún Rakel Halldórsdóttir var hetja Bröndby sem marði 1-0 sigur á Kolding í dönsku úrvalsdeildinni í dag.

Hafrún skoraði sigurmark Bröndby á 61. mínútu en þetta er annað mark hennar í síðustu þremur leikjum.

Bröndby er í 3. sæti dönsku deildarinnar með 23 stig, níu stigum frá toppnum.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir byrjuðu báðar hjá Inter sem tapaði fyrir Napoli, 1-0, í Seríu A. Inter er í 9. sæti með aðeins 6 stig eftir sex umferðir.

Hlín Eiríksdóttir spilaði síðustu mínúturnar í 4-1 tapi Leicester gegn Brighton í WSL-deildinni á Englandi. Hlín hafði unnið sér inn byrjunarliðssæti á síðustu vikum og spilaði fjölmargar mínútur, en dattt á bekkinn í dag.

Leicester er í 9. sæti deildarinnar með 6 stig.

Sandra María Jessen var í byrjunarliðinu hjá Köln sem datt óvænt út úr 16-liða úrslitum þýska bikarsins í 3-2 tapi gegn B-deildarliði Sand.

Glódís Perla Viggósdóttir byrjaði í vörninni hjá Bayern München sem vann öruggan 3-0 sigur á Ingolstadt í bikarnum. Glódís var tekin af velli á 58. mínútu.

Guðrún Hermannsdóttir lék síðustu fimmtán mínúturnar er Esbjerg vann langþráðan 1-0 sigur á Næstved í dönsku B-deildinni, en þetta var aðeins annar sigur liðsins á tímabilinu en fyrri sigurinn kom einmitt líka gegn Næstved.

Esbjerg er áfram í neðsta sæti deildarinnar með 6 stig.

Sigdís Eva Bárðardóttir kom inn af bekknum í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar er Norrköping lagði AIK að velli, 2-1. Norrköping hafnaði í 5. sæti deildarinnar með 46 stig.

Fanney Inga Birkisdóttir byrjaði í marki Häcken sem lagði Piteå, 1-0, á heimavelli. Hún fór af velli þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en Häcken er sænskur meistari í ár.

Elísa Lana Sigurjónsdóttir lagði upp síðasta markið í 7-1 stórsigri Kristianstad á Alingsås. Alexandra Jóhannsdóttir byrjaði leikinn. Kristianstad hafnaði í 6. sæti með 41 stig.

Ísabella Sara Tryggvadóttir og stöllur hennar í Rosengård björguðu sér frá falli með því að vinna Linköping, 3-1. Tímabilið var arfaslakst hjá Rosengård sem fór inn í það sem ríkjandi meistari, en tveir sigrar í síðustu tveimur leikjum staðfestu björgun liðsins.

Hún spilaði síðustu tíu mínútur leiksins á meðan María Catharina Ólafsdóttir Gros lék allan leikinn fyrir Linköping sem er fallið niður í B-deildina.
Athugasemdir
banner