Úkraínski miðillinn Tribuna hefur stillt upp tveimur líklegum byrjunarliðum Úkraínu gegn Íslandi í mikilvæga leiknum í Varsjá í dag, en stærsta spurningarmerkið er hver mun koma inn í stað Georgyi Sudakov á miðjuna og hver mun spila á vængnum.
Miðlar í Úkraínu eru nokkuð öruggir með hvaða níu leikmenn byrja leikinn.
Anatoliy Trubin stendur á milli stanganna og verða þeir Vitalyi Mykolenko og Yukhym Konoplya í bakvörðunum með þá Ilia Zabarnyi og Mykola Matvienko í miðverðinum.
Tribuna býst við því að Yehor Yarmolyuk, miðjumaður Brentford, komi inn í liðið í stað Sudakov sem er meiddur og með honum á miðsvæðinu verður Ivan Kalyuzhnyi, fyrrum leikmaður Keflavíkur.
Oleksandr Zubkov, leikmaður Trabzonspor, mun að öllum líkindum spila á vinstri vængnum með Viktor Tsyhankov á hægri og Ruslan Malinovskyi í holunni og Vladyslav Vanat fremstur.
Einnig er birt önnur uppsetning á líklegu byrjunarliði þar sem mikil óvissa ríkir um miðjuna og vængina.
Í því byrjunarliði er sami markvörður og varnarlína, en nokkrar breytingar á miðju og frammi.
Nazar Voloshyn væri þá á vinstri vængnum og Mykola Shaparenko á miðjunni með annað hvort Vanat eða Roman Yaremchuk í fremstu víglínu.
Seinni kosturinn er ekki talinn jafn líklegur og fyrri, en það verður gaman að sjá hvernig Serhiy Rebrov, þjálfari Úkraínu, mun stilla upp í þessum rafmagnaða úrslitaleik.
Leikurinn hefst klukkan 17:00 og er í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Athugasemdir


