Stjórn knattspyrnudeildar Vals kvaddi marga leikmenn kvennaliðsins í yfirlýsingu félagsins í dag en þær Fanndís Friðriksdóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Jordyn Rhodes, Natasha Anasi og Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir eru allar á förum.
Arna Sif gekk fyrst í raðir Vals árið 2016 og lék þá tvö tímabil áður en hún hélt aftur í Þór/KA. Hún sneri aftur árið 2022 og spilaði samtals 75 deildarleiki með liðinu og varð tvisvar Íslandsmeistari ásamt því að vinna bikarmeistaratitil.
Samningur hennar rann út í dag en hún er farin aftur heim í Þór/KA eins og tilkynnt var á dögunum.
Fanndís mun ekki framlengja samning sinn en hún kom til Vals frá Breiðabliki árið 2018 og verið einn af bestu leikmönnum Vals síðustu sjö árin.
Hún er einn besti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi, en hún lék 105 leiki með Val og skoraði 32 mörk. Hún varð þrisvar Íslandsmeistari og bikarmeistari í tvígang.
Jordyn kom til Vals fyrir tímabilið og skoraði 9 mörk í 23 leikjum, Natasha spilaði 21 leik á tveimur tímabilum og Guðrún Elísabet 31 leik á þremur tímabilum.
„Um leið og við þökkum þeim sem eru að kveðja og minnumst þeirra frábæru afreka er gott að minna sig á að framtíðin í Val er svo sannarlega björt og það verður spennandi að fylgjast með Valsliðinu á komandi árum. Við hvetjum allt Valsfólk til þess að fylkja sér að baki stelpunum og styðja þær áfram af krafti,“ segir í yfirlýsingu Vals.
Félagið hefur framlengt samninga við unga og efnilega leikmenn og þá hafa þeir Sonja Björg Sigurðardóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir gengið í raðir félagsins.
Elísa Viðarsdóttir er með samning á borðinu frá Val en félagið eftir svari frá henni.
Valur hafnaði í 6. sæti Bestu deildarinnar á nýafstöðnu tímabili með aðeins 29 stig.
Athugasemdir



