Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, viðurkennir að framherjinn Ivan Toney sé falur frá félaginu fyrir rétta upphæð.
Toney er í leikbanni fram í janúar vegna brot á veðmálareglum en hann er gríðarlega eftirsóttur eftir að hafa verið besti leikmaður Brentford.
Toney er 27 ára gamall og rennur samningur hans við Brentford út eftir tæplega tvö ár. Það eru því miklar líkur á því að hann verði seldur ef hann ákveður að skrifa ekki undir nýjan samning við félagið.
„Ég held að öll félög í heimi séu reiðubúin til að selja leikmenn sína fyrir rétt verð, að undanskildum þessum fimm eða sex stærstu. Við erum reiðubúnir til að selja leikmenn fyrir rétt verð og ef ég tel tímasetninguna passa," sagði Frank við Sky Sports. „Að mínu mati er það rétt hjá okkur að selja leikmenn til toppliða ef þau eru tilbúin til að borga rétt verð. Það á líka við um Ivan Toney.
„Að mínu viti er hann einn af bestu framherjum í heimi, ég sé ekki margar níur sem eru betri en hann. Það eru auðvitað Kane, Lewandowski og Haaland en það eru ekki margir leikmenn sem hafa skorað 20 mörk á einu tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Sérstaklega ekki þegar þeir spila fyrir lið sem skapar minna af færum heldur en stórliðin.
„Hann getur auðveldlega skorað 20, 25 mörk á tímabili hjá stórliði. Hann er yfirvegaður leikmaður með topp hugarfar. Hann er frábær í að klára færi og ég skil vel að stærstu félögin séu áhugasöm.
„Eins og staðan er í dag þá er hann leikmaður Brentford og miðað við verðin sem hafa verið að fljúga um á leikmannamarkaðinum mun hann kosta mjög mikið. Það eru leikmenn sem spila í sexunni að fara á yfir 100 milljónir, en við vitum öll að alvöru markaskorarar eru enn meira virði á leikmannamarkaðinum í dag. Nema að þetta hafi breyst og félög séu tilbúin til að borga meira fyrir miðjumenn heldur en fyrir framherja."
Manchester United, Chelsea, Tottenham og Arsenal eru meðal félaga sem hafa verið orðuð við Toney, sem hefur skorað 68 mörk í 124 leikjum á þremur árum hjá Brentford.