Frenkie De Jong, miðjumaður Barcelona á Spáni, framlengdi samning sinn við Barcelona í gær eftir langar samningaviðræður, en hann vill ekki tjá sig um nýja samninginn.
De Jong var launahæsti leikmaður Barcelona áður en hann framlengdi samning sinn og unnu stjórnarmenn Barcelona að því að búa til launapakka sem félagið ræður við.
Launaþak er í La Liga og gerir Barcelona allt til að lækka kostnaðinn svo það lendi ekki frekari vandræðum með að skrá leikmenn í hópinn.
Samkvæmt spænsku miðlunum mun De Jong þéna um 19 milljónir evra og þá eru bónusgreiðslur ekki teknar með inn í dæmið, en Hollendingurinn segir fréttir um laun hans stórlega ýktar.
„Ég ætla ekki að tjá mig um launin. Það er mikið um falsfréttir um launapakka minn á síðustu árum og það sem hefur verið sagt er stórlega ýkt. Þessar tölur sem voru birtar hafa aldrei verið nákvæmar,“ sagði De Jong.
Athugasemdir