Englandsmeistarar Liverpool munu á næstunni funda með Borussia Dortmund um þýska landsliðsmanninn Nico Schlotterbeck, en þetta segir þýski blaðamaðurinn Christian Falk.
Schlotterbeck er 25 ára miðvörður sem verður samningslaus árið 2027.
Dortmund mun þurfa að selja hann á næsta ári í stað þess að eiga í hættu á að missa hann frítt.
Falk segir að Liverpool hafi mikinn áhuga á Schlotterbeck og að félagið sé að undirbúa viðræður við Dortmund um varnarmanninn.
Talið er að Dortmund vilji fá að minnsta kosti 50 milljónir punda, en Falk segir einnig að leikmaðurinn sé mjög áhugasamur um að semja við enska úrvalsdeildarfélagið.
Liverpool er í leit að miðverði og hefur verið síðustu mánuði. Það rétt missti af því að fá Marc Guehi, fyrirliða Crystal Palace, en hann var í læknisskoðun hjá félaginu þegar Steve Parish, stjórnarformaður Palace, hætti við söluna.
Englandsmeistararnir hafa enn áhuga á Guehi en samkeppnin verður enn meiri um enska landsliðsmanninn á næsta ári enda hefur hann spilað frábærlega í byrjun leiktíðar og er að renna út á samningi eftir tímabilið.
Athugasemdir