
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir átti frábæran leik er Anderlecht vann magnaðan 3-2 endurkomusigur á Íslendingaliði Braga og kom sér í 16-liða úrslit Evrópubikarsins í kvöld.
Vigdís Lilja byrjaði hjá Anderlecht á meðan Guðrún Arnardóttir og Ásdís Karen Halldórsdóttir voru í byrjunarliði Braga.
Braga komst yfir með marki úr vítaspyrnu á 18. mínútu leiksins en undir lok hálfleiksins lagði Vigdís Lilja upp mark fyrir Lunu Vanzeir og einvígið jafnt, en fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli.
Fleiri urðu mörkin ekki eftir venjulegan leiktíma og þurfti því framlengingu. Christiana Vieira kom Braga yfir á fimmtu mínútu í framlengingu en Anderlecht svaraði með jöfnunarmarki seint í uppbótartíma fyrri hlutans.
Á lokamínútu leiksins skoraði Amelie Delabre sigurmark Anderlecht eftir aðra stoðsendingu frá Vigdísi. Stórkostleg frammistaða frá henni og stór ástæða þess að Anderlecht mun spila í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins í ár.
Emelía Óskarsdóttir kom inn af bekknum hjá HB Köge sem datt úr leik í keppninni eftir 5-3 tap gegn Glasgow City.
Köge hafði unnið fyrri leikinn 2-1 og var á góðri leið með að komast áfram þegar lítið var eftir.
Staðan var 3-3 þegar nokkar mínútur lifðu leiks en þá skoruðu heimakonur í Glasgow tvö mörk með stuttu millibili og tryggðu sér farseðilinn í næstu umferð.
Dregið verður í 16-liða úrslit á föstudag en tvö Íslendingalið fyrir utan Breiðablik verða í pottinum. Það eru Inter og auðvitað Anderlecht, en á morgun geta Brann (Diljá Ýr Zomers og María Þórisdóttir) og Häcken (Fanney Inga Birkisdóttir) bæst við hópinn.
Athugasemdir