Inter í kapphlaupið um Guehi en Liverpool leiðir - Wharton ofar en Baleba á lista Man Utd - Muscat líklegastur til Rangers
   mið 15. október 2025 18:52
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeild kvenna: Súrt tap hjá Íslendingaliðinu
Kvenaboltinn
Wolfsburg fagna marki gegn Vålerenga í kvöld
Wolfsburg fagna marki gegn Vålerenga í kvöld
Mynd: EPA
Lyon er með fullt hús stiga
Lyon er með fullt hús stiga
Mynd: EPA
Íslendingalið Vålerenga tapaði fyrir þýska liðinu Wolfsburg, 2-1, á afar dramatískan hátt í 2. umferð í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Wolfsburg er eitt sigursælasta lið í sögu Meistaradeildarinnar og var fyrirfram búist við að liðið myndi taka þrjú stig.

Hollenska landsliðskonan Lineth Beerensteyn skoraði fyrra mark Wolfsburg á 57. mínútu. Sædís Rún Heiðarsdóttir átti slaka sendingu til baka sem rataði á Beerensteyn sem keyrði inn að teignum og skoraði með lúmsku skoti neðst í nærhornið.

Norska liðið var ekki lengi að jafna metin. Sara Horte stangaði boltann í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu og Vålerenga komið aftur inn í leikinn.

Fimm mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og Vålerenga sekúndum frá því að sækja sterkt stig, en þá kom skellurinn. Varnarmaður Vålerenga gerðist brotleg í teignum og vítaspyrna dæmd sem Janina Minge skoraði úr.

Í kjölfarið var leikurinn flautaður af. Ótrúlega svekkjandi fyrir Vålerenga sem er enn án stiga eftir tvo leiki.

Sædís lék allan leikinn með liðinu en Arna Eiríksdóttir kom inn á sem varamaður þegar stundarfjórðungur var eftir af venjulegum leiktíma.

Lyon, sigursælasta lið í sögu Meistaradeildarinnar, vann á meðan öruggan 3-0 sigur á St. Pölten. Jule Brand, Ada Hegerberg og Lily Yohannes skoruðu mörk franska liðsins sem er með fullt hús stiga ásamt Wolfsburg.

Úrslit og markaskorarar:

Lyon 3 - 0 St. Pölten
1-0 Jule Brand ('28 )
2-0 Ada Hegerberg ('45 )
3-0 Lily Yohannes ('52 )

Vålerenga 1 - 2 Wolfsburg
0-1 Lineth Beerensteyn ('57 )
1-1 Sara Horte ('59 )
1-2 Janina Minge ('90 )
Athugasemdir
banner