Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   þri 19. janúar 2021 13:10
Magnús Már Einarsson
Þorsteinn hefur fundað með KSÍ
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks, hefur fundað með KSÍ um að taka mögulega við sem þjálfari kvennalandsliðsins.

Leit stendur yfir að landsliðsþjálfara en Þorsteinn og Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad, hafa mest verið orðuð við starfið. KSÍ hefur rætt við Þorstein og fleiri þjálfara um starfið.

„Ég er búinn að hitta KSÍ en ég var einn af mörgum held ég sem fór í viðtal. Þannig er staðan," sagði Þorsteinn við Fótbolta.net í dag. „Eins og staðan er í dag er ég þjálfari Breiðabliks og veit ekki til annars en ég verði það áfram."

Þorsteinn viðurkennir að það myndi heilla ef honum yrðið boðið landsliðsþjálfarastarfið.

„Ég myndi skoða það mjög alvarlega núna en það yrði hrikalega erfitt að fara frá Blikum vegna þess að það er frábært starf þar og þetta er frábært félag."

Þorsteinn var einnig orðaður við starfið áður en Jón Þór Hauksson tók við árið 2018. Þá fóru hann ekki í alvöru viðræður við KSÍ og hann segir að staðan sé önnur núna.

„Ég viðurkenni það. Þetta er aðeins öðruvísi hjá manni núna. Þetta kemur bara í ljós. Maður þarf að bíða og sjá hvað þeir eru að hugsa," sagði Þorsteinn.
Athugasemdir
banner