Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fös 19. febrúar 2021 11:15
Elvar Geir Magnússon
Jimenez man ekkert eftir atvikinu: Það er allt í móðu
Samstuðið óhugnalega.
Samstuðið óhugnalega.
Mynd: Getty Images
Raul Jimenez, sóknarmaður Wolves, hefur veitt sitt fyrsta viðtal eftir ógnvekjandi samstuð hans og David Luiz, varnarmanns Arsenal, í nóvember. Jimenez höfuðkúpubrotnaði og óttuðust liðsfélagar hans og mótherjar um líf hans.

Nú þremur mánuðum síðar er Jimenez kominn aftur til æfinga en hann man ekkert eftir atvikinu sjálfu.

Í viðtali við EstiloDF segir hann frá því hvernig kærasta hans, mexíkóska leikkonan Daniela Basso, hefur hjálpað honum í gegnum bataferlið.

„Þetta hefur verið mjög flókið ferli og ég veit ekki nákvæmlega hvað gerðist. Það er allt í móðu. Ég man bara þegar ég vaknaði á sjúkrahúsinu eftir að aðgerðinni var lokið. Svo var erfitt að fara aftur heim en geta ekki gert neitt," segir Jimenez.

„Allar hreyfingar sem ég framkvæmdi þurftu að vera mjög hægar en kærastan mín hefur hjálpað mér í gegnum þetta. Þetta var erfiðast fyrir hana því leikurinn var í London, við erum tveimur klukkutímum frá. Hún horði á leikinn að heiman."

„Hún hefur sýnt mér stuðning og gaf mér morgunmat í rúmið," segir Jimenez en hans hefur verið sárt saknað hjá Úlfunum, liðið er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 30 stig.

Nuno Espirito Santo, stjóri Wolves, segir enn óvíst hvenær Jimenez snýr aftur á keppnisvöllinn.

„Hann er að æfa, hann er að taka þátt í ákveðnum æfingum með liðinu og hann er að sýna framfarir. Við þurfum hins vegar að fara mjög varlega og sýna þessu þolinmæði," segir Nuno. „Hann er að færast í rétta átt og það er jákvætt en það er ennþá töluverður tími í að hann snúi aftur á völlinn."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner