banner
   fim 19. mars 2020 21:30
Ívan Guðjón Baldursson
„Ef veiran kemur ekki til Zlatan, þá fer Zlatan til veirunnar."
Mynd: Getty Images
Sænska goðsögnin Zlatan Ibrahimovic hefur verið að gera góða hluti frá komu sinni til AC Milan í janúar, þrátt fyrir að vera orðinn 38 ára gamall.

Zlatan fær ekki að spila fótbolta frekar en aðrir atvinnumenn og hefur ákveðið að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn kórónaveirunni.

Hann er búinn að hrinda af stað söfnun til að styrkja ítalska heilbrigðiskerfið á mikilli neyðarstundu, en ástandið þar í landi er afar slæmt og hafa þúsundir látist.

„Ítalía hefur gefið mér svo mikið í gegnum tíðina. Á þessari dramatísku stundu vil ég gefa til baka eins og ég get til landsins sem ég elska," skrifaði Zlatan á Instagram.

„Ég hef sett af stað söfnun og treysti á gjafmildi annarra íþróttamanna sem vilja leggja sitt af mörkum til að hjálpa við að sparka þessari veiru burt.

„Saman getum við hjálpað heilbrigðiskerfinu - læknum og hjúkrunarfræðingum sem leggja sitt af mörkum á hverjum degi til að bjarga mannslífum."


Zlatan birti færsluna í gær og hefur hún fengið gríðarlega mikla athygli. Á fyrsta klukkutímanum söfnuðust rúmlega 100 þúsund pund, sem er meira en 16 milljónir íslenskra króna.

„Spörkum kórónaveirunni burt saman og vinnum þennan leik! Og munið: Ef veiran kemur ekki til Zlatan, þá fer Zlatan til veirunnar."


Athugasemdir
banner
banner
banner