Guðmundur Þórarinsson og hans menn í armenska liðinu Noah FC eru komnir með annan fótinn í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa unnið öruggan 3-0 sigur á Ruzomberok frá Slóvakíu í fyrri leik liðanna í kvöld.
Selfyssingurinn lék allan leikinn í vinstri bakverðinum hjá Noah, sem leiddi með einu marki í hálfleik.
Undir lok leiksins skoruðu heimamenn tvö mörk og tryggðu sér þar með öruggan sigur. Síðari leikurinn fer fram í næstu viku á heimavelli Ruzomberok.
Valgeir Valgeirsson byrjaði í 2-0 sigri Örebro á Sollentuna í annarri umferð sænska bikarsins. Sigurinn þýðir að Örebro mun spila í riðlakeppni bikarsins.
Stefan Alexander Ljubicic var þá á skotskónum í 5-0 sigri Skövde AIK á Arsunda. Skövde mun einnig leika í riðlakeppninni sem fer fram á næsta ári.
Davíð Snær Jóhannsson var í liði Álasunds sem tapaði fyrir Åsane, 2-0, í norsku B-deildinni. Álasund er í 14. sæti með 18 stig.
Athugasemdir

