Sancho, Van de Beek, Greenwood, Soule, Todibo, Müller og fleiri góðir koma við sögu í slúðri dagsins
banner
   mið 20. september 2023 18:13
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Hallgrímur Mar með stórleik á Greifavelli - Fall blasir við Keflavík
watermark Hallgrímur Mar skoraði tvö og lagði upp
Hallgrímur Mar skoraði tvö og lagði upp
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Keflvíkingar eru á leið niður um deild
Keflvíkingar eru á leið niður um deild
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
KA 4 - 2 Keflavík
1-0 Jakob Snær Árnason ('3 )
2-0 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('6 )
2-1 Ísak Daði Ívarsson ('18 )
3-1 Ásgeir Sigurgeirsson ('24 )
3-2 Ígnacio Heras Anglada ('47 )
4-2 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('88 )
Lestu um leikinn

KA er einu stigi frá því að tryggja áframhaldandi veru í Bestu deild karla en þetta varð ljóst eftir 4-2 sigurinn á Keflavík á Greifavelli.

Heimamenn skoruðu tvö mörk fyrstu sex mínútum leiksins. Jakob Snær Árnason skoraði á 3. mínútu eftir fyrirgjöf Hallgríms Mar Steingrímssonar áður en Hallgrímur gerði annað markið er Harley Willard kom með utanfótarsendingu inn á Hallgrím sem afgreiddi færið.

Ísak Daði Ívarsson kom Keflvíkingum inn í leikinn á 18. mínútu. Axel Ingi Jóhannesson tók svakalegan sprett upp kantinn, kom með sendinu meðfram jörðinni og á Ísak Daði sem skoraði af stuttu færi.

Ásgeir Sigurgeirsson svaraði aðeins sex mínútum síðar með ótrúlegu marki. Hann var með boltann á hægri kantinum og lét vaða yfir Mathias Rosenörn og í netið.

Jakob Snær var nálægt því að gera fjórða mark KA á 29. mínútu eftir sendingu frá Ívari Erni Árnasyni en boltinn í stöng.

Keflvíkingar komu sér aftur inn í leikinn í upphafi síðari hálfleiks er Nacho Heras stangaði aukaspyrnu Sami Kamel í netið.

Steinþór Már Auðunsson, markvörður KA, kom sér í vandræði stuttu síðar er Sami Kamel komst fyrir hreinsun, færði boltann á Edon Osmani sem kom með fyrirgjöfina en þá var enginn til að mæta henni.

Keflvíkingar reyndu að ná inn jöfnunarmarki sem kom aldrei en Hallgrímur Mar náði að gera út um leikinn með öðru marki sínu í leiknum á 88. mínútu og þar við sat.

KA er á toppnum í fallriðlinum með 32 stig, á meðan fall blasir við Keflvíkingum sem eru í neðsta sæti með 12 stig, átta stigum frá öruggu sæti þegar fjórir leikir eru eftir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner