KA vann Keflavík í hörku leik í neðri hluta Bestu deildarinnar í dag. Fótbolti.net ræddi við Hallgrím Mar Steingrímsson leikmann KA sem skoraði tvö mörk í dag.
Lestu um leikinn: KA 4 - 2 Keflavík
„Leikurinn var kaflaskiptur, við byrjuðum mjög vel og ég hélt að við værum að fara rúlla yfir þá en síðan slökum við á og erum 'soft' varnarlega og þeir fá færi í fyrri hálfleik sem þeir hefðu getað skorað úr," sagði Hallgrímur Mar.
„Þetta var mjög steiktur leikur. Í seinni hálfleik voru þeir miklu betri. Mér fannst við ekki eiga breik framan af í seinni hálfleik, vorum lélegir varnarlega og vorum ekki að sinna því sem við eigum að sinna."
KA hóf leikinn af krafti en Keflvíkingar unnu sig inn í leikinn og munurinn var aðeins eitt mark í hálfleik.
„Við komumst 2-0 yfir og menn halda kannski að þetta verði eitthvað auðvelt. Þetta er aldrei auðvelt í fótbolta, sérstaklega á móti liði sem er að berjast fyrir lífi sínu," sagði Hallgrímur Mar.
KA tapaði í úrslitum Mjólkurbikarsins gegn Víkingum um síðustu helgi. Sá leikur var ekki að trufla Hallgrím í dag.
„Ég er hættur að hugsa um hann, maður svekkti sig á þessu í tvo daga. Það þýðir ekki að breyta því, það gerðist. Við förum þangað á næsta ári líka og reynum að vinna þá. Við klárum þessa leiki sem eftir eru eins vel og við getum," sagði Hallgrímur Mar.