
Njarðvík bar 2-1 sigurorð á Keflavík er liðin mættust á HS Orkuvellinum í dag í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í Bestu deildinni að ári. Gunnar Heiðar Þorvaldsson var til viðtals við Fótbolta.net að leik loknum. Um leikinn sagði Gunnar
Lestu um leikinn: Keflavík 1 - 2 Njarðvík
„Erfitt, það er alltaf erfitt að koma til Keflavíkur og eiga við þá hér. Mér fannst leikurinn spilast eins við héldum að hann myndi spilast. Það sem við lögðum upp með gekk fullkomnlega upp. Við skorum tvö góð mörk í fyrri hálfleik og áttum nokkra aðra sénsa þar sem munaði bara nokkrum sentimetrum. Mér fannst strákarnir gera frábærlega í dag. Var virkilega ánægður með vinnuframlagið, gæðin hjá okkur og ákvarðanatöku á bolta sem okkur fannst vanta hjá okkur á Ljósanótt gegn þeim.“
Keflvíkingar minnkuðu munin í síðari hálfleik og sóttu nokkuð stíft á gestina þó þeir hafi ekki náð að skapa sér mörg afgerandi færi. Gunnar var ánægður með sína menn á þeim kafla og þann vilja sem leikmenn sýndu.
„Það var hálf fyndið að sjá hvernig leikurinn varð. Allt í einu er kominn mikill vindur á annað markið og eins og þeir væru komnir með veðurguðina með sér í lið. Það var því virkilega sterkt af okkur að halda þetta út. Því þeir vissulega komu á okkur, fengu augnablikið og vindinn með sér og það stóð allt á okkur en mér fannst við standa okkur vel í því.“
Agareglur og leikbönn voru í umræðunni fyrir leik og verða það ennfremur að honum loknum. Oumar Diouck fékk að líta gula spjaldið í fyrri hálfleik og var það hans sjöunda í sumar. Eins og reglurnar eru hefði hann því verið úrskurðaður í leikbann frá og með næsta miðvikudegi og hefði því átt að missa af úrslitaleiknum sjálfum færi svo að Njarðvík kæmist þangað. Oumar og Njarðvík höfðu því hag af því að hann fengi að líta rauða spjaldið og fara sjálfskrafa í eins leiks bann sem hann tæki út í síðari leiknum. Það kom því engum á vellinum á óvart þegar Oumar fékk að líta sitt anna gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma þegar hann tók boltann er eftir að Njarðvík hafði verið dæmt brotlegt á miðjum vellinum. Hann verður því í banni í síðari leik liðanna á sunnudag og annað árið í röð nýtir lið sér þessar mjög svo sérkennilegu reglur um leikbönn sér í hag. Um málið sagði Gunnar Heiðar.
„Menn verða bara að vinna með það sem þeir hafa. Hann fær frekar ódýrt gult spjald i fyrri hálfleik og þá vissum við það að hann yrði í banni í úrslitaleiknum. Seinna gula spjaldið þá er hann klárlega að reyna þetta til þess að gefa sér séns á að spila úrslitaleikinn ef við komumst þangað. Þetta er leiðinlegt að þurfa að fara í einhvern svona leik til þess að mögulega spila úrslitaleikinn. En ég er bara virkilega ánægður með Oumar og hann hefur verið fyrir mér besti leikmaðurinn í þessu móti.“
Allt viðtalið við Gunnar má sjá hér að ofan
Athugasemdir