Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 21. mars 2019 11:00
Arnar Daði Arnarsson
Álitsgjafar svara - Hvað nær Ísland í mörg stig úr þessum glugga?
Icelandair
Edda Sif er ekkert rosalega bjartsýn.
Edda Sif er ekkert rosalega bjartsýn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver Sigurjónsson.
Oliver Sigurjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristinn Páll Teitsson, Fréttablaðinu.
Kristinn Páll Teitsson, Fréttablaðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Jónsson.
Kristján Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Undankeppni Evrópumótsins 2020 hjá Íslandi hefst á föstudagskvöld þegar Ísland heimsækir Andorra heim. Annar leikur Íslands fer síðan fram strax á mánudagskvöldið í París þegar landsliðið mætir Heimsmeisturunum.

Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að spá í fyrstu leiki Íslands í undankeppninni.


Björgvin Stefánsson - Leikmaður KR:
Ísland nær í þrjú stig. Leikurinn gegn Andorra verður eldgamli göngutúrinn í garðinum. Ég þekki ekki einn leikmann frá Andorra og það væri skandall að vinna þá ekki svona 5-0. Við erum kannski ekki upp á marga fiska þessa stundina en Andorra geta ekkert. Ekki neitt. Það er eiginlega bara glórulaust að þeir fái að taka þátt í þessari undankeppni því það er tímasóun að spila við þá.

Þrjú örugg stig gegn ömurlegu liði. Það jákvæða við þann leik er að VÖK-vélin kemst í gang með landsliðinu og skorar líklega þrennu. Annars verður kannski ekkert rosalega mikið að marka það þar sem Andorra eru svo hrikalega slappir að það nær engri átt. Ömurlegir. Skelfilegir. Hörmung.

Frakkarnir hinsvegar. Það er allt annar handleggur. Það er einfaldlega of stór biti fyrir okkur til að kyngja. Við eigum ekki séns á móti þeim. Ekki einn einasta. Þeir eru svo góðir að þeir eru bestir í heimi. Mér finnst leiðinlegt að vera svartsýnn en við erum að fara að skíttapa fyrir þeim, því miður.

Edda Sif Pálsdóttir, RÚV:
Ísland tapar báðum leikjunum og fær þar af leiðandi núll stig. Ég vona að það sé ekkert til í þessu hjá mér en þetta er blanda af væntingastjórnun og áunninni svartsýni í ljósi úrslita síðustu misserin.

Andorraleikurinn verður basl sem við endum með að tapa 2-1. Viðar Örn kemur inn á og skorar í stöðunni 2-0. Frakkaleiknum töpum við svo 3-1. Lendum aftur undir 3-0 en Gylfi skorar úr víti.

Oliver Sigurjónsson, Bodo/Glimt:
Þrjú stig. Ljótur en gífurlega mikilvægur sigur á Andorra. Ég held við verðum í brasi með að stýra leiknum en vinnum á einu eldgömlu föstu leikatriði.

Frakkar verða ekki betri í leiknum en þeir eru með einstaklinga sem þurfa svona ótrúlega lítinn tíma og hafa svo rosaleg gæði til að skora og ég held að okkur verði refsað.

Kristinn Páll Teitsson, Fréttablaðið:
Þrjú stig - Sama hvað verður ritað og rætt um gervigrasið í Andorra þá á að vera krafa að taka þrjú stig í fyrri leiknum ef landsliðið ætlar á Evrópumótið og hvorki strákarnir né þjálfarateymið fara leynt með þau áform. Hausverkurinn er hver ætlar að skora fyrir Ísland því Andorra skorar ekki mikið. Með marki snemma leiks ætti eftirleikurinn að verða auðveldari.

Frakklandsleikurinn er bónusleikurinn í þessari undankeppni, stig eða betra væri frábært á útivelli gegn ríkjandi heimsmeisturum og silfurliðinu frá EM. Þeir taka þessu örugglega mjög alvarlega eftir jafnteflið síðasta haust og mæta fullir einbeitingar á þjóðarleikvanginn. Ég verð að telja líklegt að strákarnir fari tómhentir frá París en taki þrjú stig í Andorra.

Kristján Jónsson, Morgunblaðið:
Ég býst við því að Ísland fái samtals þrjú stig úr þessum tveimur útileikjum. Ekkert sem kemur á óvart í því.

Ég á von á sigri hjá okkar mönnum í Andorra. Það er aldrei sérstaklega góð hugmynd að búast við því að Ísland bursti andstæðinginn. Sigur er nóg en ég gæti séð fyrir 2-0 eða 3-0. Það fer eftir því hvenær fyrsta markið kemur. Ef það kemur snemma þá gætu heimamenn brotnað. Eftir því sem lengri tími líður í stöðunni 0-0 þá munu þeir eflast.

Síðari leikurinn er gegn heimsmeisturunum. Þeir eru með endalausan mannskap og er stýrt af miklum leiðtoga sem unnið hefur HM bæði sem leikmaður og þjálfari. Þeir eiga að vinna sína heimaleiki, hvort sem það er á móti Íslendingum eða öðrum. Ég held að það hjálpi ekki að hafa gert jafntefli við þá á dögunum. Það minnkar líkurnar á værukærð hjá Frökkunum.
Athugasemdir
banner
banner