Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
banner
   sun 21. apríl 2024 17:35
Brynjar Ingi Erluson
England: Liverpool upp að hlið Arsenal - Alexander-Arnold skoraði úr aukaspyrnu
Trent Alexander-Arnold tók 'suss' fagnið
Trent Alexander-Arnold tók 'suss' fagnið
Mynd: Getty Images
Diogo Jota skoraði þriðja markið
Diogo Jota skoraði þriðja markið
Mynd: Getty Images
Fulham 1 - 3 Liverpool
0-1 Trent Alexander-Arnold ('32 )
1-1 Timothy Castagne ('45 )
1-2 Ryan Gravenberch ('53 )
1-3 Diogo Jota ('72 )

Titilvonir Liverpool eru enn á lífi eftir að liðið vann 3-1 sigur á Fulham í 34. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Craven Cottage í dag.

Síðustu vikur hafa verið svolítið undarlegar hjá Liverpool-liðinu. Margir leikmenn hafa verið ískaldir og á dögunum datt liðið úr leik í Evrópudeildinni.

Liverpool hefur nú sett fulla einbeitingu á deildina og tókst liðinu að halda sér á lífi í titilbaráttunni í dag.

Trent Alexander-Arnold skoraði stórbrotið aukaspyrnumark á 32. mínútu. Hann setti boltann efst upp í vinstra hornið af 25 metra færi, sem var mikill léttir, enda ekki auðvelt að mæta á þennan heimavöll. Alexander-Arnold tók síðan fræga 'suss' fagnið sitt í kjölfarið.

Undir lok hálfleiksins komust heimamenn aftur inn í leikinn er Timothy Castagne jafnaði metin með skoti úr miðjum teignum.

Stuðningsmenn Liverpool voru væntanlega forvitnir að sjá hvaða áhrif þetta hefði á liðið en viðbrögðin voru góð. Ryan Gravenberch skoraði glæsilegt skot fyrir utan teig á 53. mínútu leiksins áður en Diogo Jota gerði út um leikinn.

Jota fékk boltann í gegn vinstra megin og í flestum tilvikum þá endar það inni, sem og það gerði. Bernd Leno gat ekki séð við honum og náði hann þarna að innsigla sigurinn.

Liverpool er komið upp að hlið Arsenal, með 74 stig, en með slakari markatölu. Manchester City er í 3. sæti með 73 stig, en á leik til góða.
Athugasemdir
banner
banner
banner