fös 21. júní 2019 11:36
Arnar Daði Arnarsson
Leikmaður Tindastóls fékk þungt höfuðhögg
Myndin tengist ekki fréttinni.
Myndin tengist ekki fréttinni.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Sverrir Hrafn Friðriksson leikmaður botnliðs Tindastóls þurfti að fara af velli í 4-2 tapi liðsins gegn Selfossi í gærkvöldi vegna þungs höfuðhöggs.

Tindastóll sendi frá sér tilkynningu á Facebook-síðu félagsins þar sem fram kemur að eftir skoðun á sjúkrahúsi í gær hafi komið í ljós að litlu hefði mátt muna að blætt hefði inná heila vegna höfuðhöggsins.

„Samkvæmt upplýsingum á Sverrir að ná fullum bata með góðri hvíld. Hann liggur enn á spítala og má ekki hreyfa sig neitt og verður ekki hleypt heim fyrr en læknar telja það öruggt," segir í tilkynningunni frá Tindastól þar segir ennfremur að ljóst sé að Sverrir spilar ekki meiri fótbolta í sumar.

„Þó það sé mikið áfall fyrir liðið þá er jafnframt ljóst að við skulum þakka fyrir að ekki fór verr en hefði getað farið. Við óskum Sverri góðs bata og vonum að hann nái sér sem fyrst!"

Sverrir Hrafn er fæddur árið 1997 og uppalinn á Vopnafirði. Hann hefur leikið með Tindastól síðustu tvö sumur en hann hefur skorað eitt mark í átta leikjum Tindastóls í 2. deildinni í sumar.

Fréttin hefur verið uppfærð
Í fyrstu var talið að blætt hafi inná heila Sverris en Tindastóll hefur breytt fyrstu tilkynningu sinni með þeim orðum að litlu hafi munað að blætt hefði verið inná heila leikmannsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner