Tveir miðverðir orðaðir við Liverpool - Graham Potter næsti landsliðsþjálfari Englands? - Arsenal líklegast til að fá Merino - Man City vill fá...
banner
   fös 21. júní 2024 17:11
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gefst ekki upp þrátt fyrir mikið mótlæti - „Ætla mér langt á ferlinum"
'Verður að dreyma stórt'
'Verður að dreyma stórt'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég er ekki búinn að gefast upp, þetta er eitt skref til baka til að taka nokkur skref áfram'
'Ég er ekki búinn að gefast upp, þetta er eitt skref til baka til að taka nokkur skref áfram'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Á æfingu með U21 landsliðinu í fyrra.
Á æfingu með U21 landsliðinu í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta var ekki nógu góður tími sem maður vill gleyma'
'Þetta var ekki nógu góður tími sem maður vill gleyma'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Svo þegar ég fékk mínútur þá gekk oft mjög vel, unnum alla leiki í bikar þangað til ég var ekki inn á'
'Svo þegar ég fékk mínútur þá gekk oft mjög vel, unnum alla leiki í bikar þangað til ég var ekki inn á'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver Stefánsson gekk í vetur í raðir uppeldisfélasins ÍA eftir eitt tímabil hjá Breiðabliki þar sem hann fékk takmarkað að spila. Oliver er byrjunarliðsmaður í liði ÍA sem hefur farið vel af stað í Bestu deildinni og situr liðið í 4. sæti eftir tíu umferðir.

Hann ræddi við Fótbolta.net eftir sigurinn gegn KR á þriðjudag.

Markmiðið Evrópusæti?
„Mjög fínt, þetta er það sem við ætluðum okkur, við erum sáttir en ekki of sáttir. Við viljum meira," sagði Oliver.

Á hvað eru Skagamenn að horfa núna?

„Við erum með markmið innan hópsins sem maður má því miður ekki segja frá. Við stefnum hátt og við gefum bara út mótið."

„Maður veit það ekki, maður er með stóra drauma, verður að dreyma stórt," sagði Oliver aðspurður hvort markmiðið tengdist Evrópusæti

Mjög sáttur í þriggja manna vörn ÍA
Oliver spilar sem vinstri miðvörður í þriggja miðvarða kerfi.

„Ég er að fíla mig mjög vel, er með Erik (Tobias Sandberg) hægra megin við mig, hann er frábær. Svo hefur Hilmar (Elís Hilmarsson) komið inn, staðið sig frábærlega og gjörsamlega pakkar þessu saman. Við erum búnir að æfa þetta það vel að það skiptir ekki máli hvar menn eru í vörninni, við rúllum mjög mikið og þetta gengur hrikalega vel. Jón Þór (þjálfari) og teymið er búið að gera frábærlega í vetur. Við erum mjög sáttir með þetta og mér líður mjög vel í þriggja manna vörn."

Viktor getur gert allt
Viktor Jónsson skoraði sitt áttunda mark á tímabilinu gegn KR. Það er gott fyrir Skagamenn að vita af honum frammi.

„Já, ertu að grínast? Hann getur gert þetta allt saman; skorað með löppunum og skalla. Maður veit alltaf að þótt staðan sé 0-0 og mikið búið af leiknum, þá er hann alltaf hættulegur."

Eitt skref til baka til að taka nokkur skref áfram
Af hverju fór Oliver til ÍA í vetur?

„Ég veit hvað ég hef hérna, þekki fólkið, þekki klúbbinn og vantaði að fá mínútur. Eins og allir vita þá er ég búinn að vera hrikalega lengi meiddur og veikur," sagði Oliver sem hefur glímt við erfið meiðsli á sínum ferli. „Ég þarf að spila og koma mér í gang. Ég ætla mér aftur út og ætla mér langt á ferlinum. Ég er ekki búinn að gefast upp, þetta er eitt skref til baka til að taka nokkur skref áfram."

„Skrokkurinn er mjög fínn, ég er búinn að spila nánast allar mínútur fyrir utan leikbann. Mér líður mjög vel í skrokknum, með geggjað starfslið hérna; sjúkraþjálfara sem er frábær og styrktarþjalfara. Stór hluti af ástæðunni fyrir því að ég kom hingað var að ég vissi að það væri verið að leggja mikið í umgjörðina; sjúkraþjálfari í fullu starfi og allt svoleiðis. Ég hef allt til alls hérna, ekkert til að kvarta yfir og er mjög sáttur með það."


Hélt kjafti og hélt áfram að æfa
Oliver var spurður út í tímann hjá Breiðabliki.

„Þetta var ekki nógu góður tími sem maður vill gleyma. Það voru frábærir leikmenn og flottir einstaklingar innan hópsins."

Oliver var í þeirri stöðu fyrir síðasta tímabil að stærstu félög landsins vildu fá hann í sínar raðir. Talsvert var rætt um að Oliver hefði fengið góðan samning hjá Breiðabliki og var hann nokkrum sinnum gagnrýndur fyrir sína frammistöðu. Fannst honum umtalið ósanngjarnt?

„Fólk má tala eins og það vill, ég er ekki að kippa mér upp við það. Ég hefði viljað spila meira. Hitt og þetta var sagt þegar ég kom inn, en svo gerist allt annað. Maður reyndi bara að halda áfram, hélt kjafti og hélt áfram að æfa. Þótt það væri mikið talað þá var ég aldrei að segja neitt. Ég bara hélt áfram að æfa og ég held að allir leikmenn í Breiðabliki geti sagt að ég hafi æft meira en meðal einstaklingur. Ég reyndi bara að koma mér inn í liðið."

„Svo þegar ég fékk mínútur þá gekk oft mjög vel, unnum alla leiki í bikar þangað til ég var ekki inn á. Ég gerði mitt besta og svo komu lélegir leikir inn á milli. Það var kannski ekki skrítið, það voru gerðar níu breytingar á liðinu og verið að hvíla mikilvægustu leikmennina fyrir Evrópuleikina sem er bara gott og blessað."

„Þetta var ekki nógu góður tími en maður horfir bara fram á við. Það eru líka góðar minningar, frábærir einstaklingar og topplið."


Lærði af þessu utan vallar, minna innan vallar
Gerðir þú mistök með því að semja við Breiðablik?

„Mistök og ekki mistök, maður getur alltaf verið sniðugur eftir á. Ég veit það ekki. Maður lærir af þessu utan vallar þótt maður lærði ekki mikið innan vallar," sagði Oliver að lokum.

Oliver er 21 árs miðvörður sem var seldur frá ÍA til Norrköping árið 2018 en náði ekki að komast í gegn hjá Norrköping, aðallega vegna erfiðra meiðsla. Hann lék á láni með ÍA tímabilið 2022 og samdi svo við Breiðablik fyrir tímabilið 2023. Hann á að baki 21 leik fyrir yngri landsliðin, þar af fjóra fyrir U21 landsliðið.
Fagnaði langþráðum sigri ÍA gegn KR - „Fékk afbrigði af Covid sem enginn hefur fengið"
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 14 10 3 1 34 - 14 +20 33
2.    Valur 14 8 4 2 36 - 18 +18 28
3.    Breiðablik 14 8 3 3 29 - 17 +12 27
4.    FH 14 7 3 4 26 - 23 +3 24
5.    ÍA 14 7 2 5 32 - 20 +12 23
6.    Fram 14 5 4 5 20 - 20 0 19
7.    Stjarnan 14 5 2 7 25 - 29 -4 17
8.    KA 14 4 3 7 22 - 29 -7 15
9.    KR 14 3 5 6 23 - 26 -3 14
10.    HK 14 4 1 9 16 - 34 -18 13
11.    Fylkir 14 3 2 9 21 - 36 -15 11
12.    Vestri 14 3 2 9 17 - 35 -18 11
Athugasemdir
banner
banner
banner