lau 21. september 2019 22:05
Ívan Guðjón Baldursson
Mourinho: Eto'o átti að vinna Gullknöttinn
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho segist ekki skilja hvers vegna Samuel Eto'o hafi aldrei hlotið Gullknöttinn. Kamerúnski sóknarmaðurinn lagði skóna á hilluna fyrr í mánuðinum, enda orðinn 38 ára gamall.

Eto'o lék undir stjórn Mourinho hjá Inter þar sem þeir unnu þrennuna saman 2009-10. Þeir voru einnig saman hjá Chelsea 2013-14.

Eto'o lék lykilhlutverk í þrennu Inter en árið áður vann hann þrennuna með Barcelona undir stjórn Josep Guardiola.

„Ég get ekki skilið hvers vegna Eto'o vann aldrei Gullknöttinn. Hann vann Meistaradeildina þrisvar og skoraði í tveimur úrslitaleikjum. Hann hefur unnið mikið af deildartitlum og var besti sóknarmaður í heimi í nokkur ár," sagði Mourinho.

Eto'o skoraði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2005-06 og var tilnefndur til verðlaunanna en það ár hafði ítalski miðvörðurinn Fabio Cannavaro betur. Svo brutust Lionel Messi og Cristiano Ronaldo fram á sjónarsviðið.

Árið sem Eto'o vann þrennuna með Inter kom hann ekki einu sinni til greina fyrir Gullknöttinn. Heldur voru það Messi, Andres Iniesta og Xavi sem komu til greina, enda nýbúnir að vinna HM með Spánverjum.

Eto'o skoraði 370 mörk í 759 leikjum með félagsliðum á ferlinum. Hjá Barcelona skoraði hann 130 mörk í 199 leikjum, hjá Inter voru mörkin 52 í 103 leikjum.

Þá vann hann Afríkukeppnina með Kamerún 2000 og 2002.
Athugasemdir
banner
banner
banner