mið 22. janúar 2020 07:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Chilwell og Choudhury sektaðir af liðsfélögum sínum
Ben Chilwell.
Ben Chilwell.
Mynd: Getty Images
Bakvörðurinn Ben Chilwell og miðjumaðurinn Hamza Choudhury voru sektaðir af liðsfélögum sínum hjá Leicester fyrir að mæta of seint á æfingu í síðustu viku.

Félagið sá ekki um sektina, heldur leikmannahópurinn. Af sektinni fer 50% í jólaveislu leikmanna og hinn 50% í sjóð Vichai Srivaddhanaprabha, fyrrum eiganda Leicester sem lést í þyrluslysi á síðasta ári.

Hvorugur leikmanna kom við sögu gegn Burnley um liðna helgi, en það er ekki talin hafa verið refsing.

Brendan Rodgers, knattpsyrnustjóri Leicester, kom þeim til varnar á fréttamannafundi í gær. „Svona gerist hjá öllum félögum."

„Það var tekið á þessu innanbúðar. Það er engin ástæða til að fara eitthvað lengra með það. Þetta eru ungir leikmenn og ungir leikmenn gera mistök. Við tökum á þessu, tölum við leikmennina tvo og höldum áfram. Þetta eru góðir drengir og þeir hafa lært sína lexíu," sagði Rodgers.

Leicester, sem er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar, mætir West Ham í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner