Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
   mið 22. maí 2024 21:59
Ívan Guðjón Baldursson
Gasperini: Skrifuðum söguna í dag
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Gian Piero Gasperini, þjálfari Atalanta, var kampakátur eftir 3-0 sigur liðsins gegn Bayer Leverkusen í úrslitaleik Evrópudeildarinnar fyrr í kvöld.

Atalanta spilaði flottan leik gegn ógnarsterku liði Leverkusen sem hafði verið óstöðvandi hingað til á leiktíðinni. Leverkusen fór í gegnum nánast allt tímabilið, 51 leik í öllum keppnum, án taps en í kvöld kom tapið í 52. leiknum.

„Við skrifuðum söguna í dag eftir að hafa átt magnaða útsláttarkeppni. Við slógum Liverpool út og svo sendum við Sporting heim. Þegar við mættum Liverpool þá voru þeir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og núna er Sporting búið að tryggja sér portúgalska deildartitilinn," sagði Gasperini stoltur. „Og núna erum við búnir að sigra þýsku meistarana.

„Þetta hefur verið mögnuð vegferð í Evrópu. Strákarnir hafa verið ótrúlegir og þessi frammistaða í kvöld er eftirminnileg. Þeir stigu varla feilskref."


Deildartímabilið hefur ekki verið jafn gott hjá Atalanta, en liðið var þó öruggt með meistaradeildarsæti hvernig sem úrslitaleikurinn hefði farið. Atalanta er í fimmta sæti ítölsku deildarinnar sem stendur en getur náð þriðja sætinu með því að sigra síðustu tvo leiki deildartímabilsins.
Athugasemdir
banner
banner