Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 22. júní 2022 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Khelaifi hafnaði 180 milljónum frá Real Madrid
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Nasser Al-Khelaifi forseti PSG ræddi um framtíð félagsins og sagði að hægt sé að búast við miklum breytingum í sumar.


Luis Campos var á dögunum ráðinn yfirmaður íþróttamála og er félagið að ganga frá ráðningu á Christophe Galtier sem aðalþjálfara.

Framtíð einhverra leikmanna er í óvissu og líður Al-Khelaifi eins og sumir þeirra hafi notfært sér góðmennsku stjórnenda PSG.

„Okkar staða er skýr: leikmenn sem eru ekki partur af áformum okkar verða að fara í sumar. Það er engin önnur leið. Einhverjir leikmenn reyndu að nýta sér ástandið en það er ekki hægt lengur," sagði Al-Khelaifi.

Framtíð Kylian Mbappe hjá félaginu var mikið í umræðunni í vetur og vor en ungstirnið endaði á að skrifa undir nýjan samning við PSG þrátt fyrir að eiga möguleika á að fara til Real Madrid á frjálsri sölu.

Al-Khelaifi segist hafa hafnað risatilboði frá Real Madrid síðasta sumar því hann hafi vitað að Mbappe myndi ekki yfirgefa félagið.

„Ég hafnaði 180 milljón evrum frá Real Madrid síðasta sumar því ég vissi að Kylian vildi vera áfram hjá PSG. Kylian er sama um peninga, hann valdi að spila áfram fyrir sína borg, sitt félag og sína þjóð."

Forsetinn var að lokum spurður út í framtíð Neymar. „Ég get ekki rætt um það. Einhverjir leikmenn munu koma og einhverjir munu fara."


Athugasemdir
banner
banner
banner