Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 24. júlí 2021 19:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Hrikalega stoltur af liðinu" - Mættu hugrakkir og héldu sér við sinn leikstíl
Breiðablik átti góðan leik í Vín.
Breiðablik átti góðan leik í Vín.
Mynd: Getty Images
Höskuldur í tæklingu í leiknum í Vín.
Höskuldur í tæklingu í leiknum í Vín.
Mynd: Getty Images
Blikar fagna marki sínu sem Alexander Helgi Sigurðarson skoraði.
Blikar fagna marki sínu sem Alexander Helgi Sigurðarson skoraði.
Mynd: Getty Images
Anton Ari Einarsson átti frábæran leik.
Anton Ari Einarsson átti frábæran leik.
Mynd: Getty Images
Lið Breiðabliks sýndi frábæra spilamennsku og náði góðum úrslitum í Austurríki á fimmtudag þegar 1-1 var niðurstaðan í fyrri leiknum gegn Austria Vín í Sambandsdeildinni. Liðin mætast svo aftur á Kópavogsvelli á fimmtudaginn.

Blikar voru meira með boltann en heimamenn á fimmtudaginn, þeir héldu sér við sitt leikskipulag og fengu jákvætt umtal í útvarpsþættinum Fótbolti.net þar sem meðal annars var rætt við Höskuld Gunnlaugsson fyrirliða.

„Það var hrikalega gaman að vera í svona gryfju og það voru bullur fyrir aftan markið sem gerðu það að verkum að það maður heyrði ekkert í samherjum eða þjálfurum. Maður þurfti að tjá sig með látbragði," segir Höskuldur um upplifunina af leiknum.

Yfir sjö þúsund manns voru á vellinum og góð stemning en nýbúið er að losa um áhorfendabann í Austurríki vegna heimsfaraldursins.

Kunnum ekkert að pakka og verjast
„Við heppnuðumst ekkert með jafntefli, þetta var jafnvel sanngjörn niðurstaða. Það hefði verið áhugavert að sjá hvað hefði gerst hefði vinur okkar dæmt víti þarna í fyrri hálfleik. Maður er hrikalega stoltur af liðinu að mæta svona hugað og hugrakkt í leik eins og þennan," segir Höskuldur en Blikar hefðu átt að fá vítaspyrnu þegar staðan var markalaus.

Íslensk lið eru vön því að setja sig í algjöran varnargír í Evrópuleikjum, sérstaklega á útivelli, en Blikar hafa verið á góðri siglingu í Pepsi Max-deildinni og mættu óhræddir til Vínar. Í fyrra var uppleggið svipað gegn Rosenborg og 2-4 tap niðurstaðan þá.

„Það var ausað yfir okkur eftir leiðinlega ferð í fyrra. Óskar talaði um af hverju við ættum að reyna að vera einhver B eða C útgáfa af einhverju liði sem pakkar og finnst gott að verjast? Við bara kunnum það ekkert. Það myndi enda illa held ég. Við lágum alveg til baka þegar þess þurfti og erum ekki hrokafullir eða kærulausir í þessu."

„Það er kominn góður taktur í okkur og áhættustýringin orðin betri án þess að við höfum skipt um plan. Við erum sama aggressífa liðið sem tekur áhættur og vill spila skemmtilegan fótbolta. Menn læra betur inn á þetta eftir að hafa spilað lengur saman. Það er yndislegur staður að vera á þegar menn finna að þetta sé að smella."

Besti leikur Antons fyrir Breiðablik
Markvörðurinn Anton Ari Einarsson hefur verið að spila feikilega vel síðustu vikur og hann átti stórleik í Vín. Tómas Þór talaði um í útvarpsþættinum að þetta hefði verið besti leikur Antons fyrir Blika.

„Ég er sammála því, hann var ótrúlegur í þessum leik. Þetta var samt áframhald á hans stíganda. Hann byrjar oftast uppspilið okkar og er með sjálfstraustið í botni, það sást vel í þessum leik," segir Höskuldur.

Seinni leikur Breiðabliks gegn Austría Vín á fimmtudaginn verður mjög áhugaverður. Í útvarpsþættinum ræðir Höskuldur um hvað Blikar gerðu vel í leiknum á fimmtudag og hvað þurfi að forðast í seinni leiknum.

„Þeir eru með mjög hávaxið lið og við megum helst ekki vera að fá á okkur aukaspyrnur á eigin vallarhelmingi. Þá stilla þeir bara upp og inn með liðið. Þar er erfitt að eiga við þá, hávaxið lið með góða spyrnumenn," segir Höskuldur en áður en kemur að seinni leiknum gegn Austria er deildarleikur gegn Keflavík á útivelli annað kvöld. Keflavík sló Blika út úr bikarnum.

„Við eigum harma að hefna frá bikarleiknum og við förum með núll vanmat inn í þann leik."

Hlustaðu á útvarpsþáttinn í spilaranum hér að neðan eða í hlaðvarpsforritum
Útvarpsþátturinn - Hugaðir Blikar og ÍBV gleður Eyjamenn eftir áfallið
Athugasemdir
banner
banner
banner