Jon Dahl Tomasson hefur verið ráðinn sem nýr landsliðsþjálfari sænska landsliðsins og er þar með fyrsti erlendi þjálfarinn til að taka við starfinu.
Tomasson, sem er danskur, tekur við af Janne Andersson sem sagði upp starfinu eftir að Svíum mistókst að komast á EM 2024.
Tomasson er 47 ára gamall og fær samning sem gildir út undankeppnina fyrir HM 2026. Þá mun hann fá sjálfkrafa framlengingu á samningi ef honum tekst að koma Svíum á lokamótið í Norður-Ameríku.
Tomasson var mikill markaskorari á ferli sínum sem leikmaður og lék meðal annars fyrir AC Milan, Stuttgart og Newcastle en honum gekk best hjá Feyenoord í hollenska boltanum.
Hann hefur þjálfað Excelsior, Roda JC, Malmö og Blackburn Rovers á þjálfaraferlinum en var rekinn frá Blackburn í byrjun febrúar eftir slæmt gengi þar sem liðið var í fallbaráttu.
Tomasson skoraði 52 mörk í 112 landsleikjum fyrir Danmörku og var aðstoðarþjálfari danska landsliðsins frá 2016 til 2019, áður en hann tók við Malmö.
Hann stýrir Svíum í fyrsta sinn í æfingalandsleik gegn Portúgal í mars.
Tomasson er danskur en á ættir að rekja til Íslands og Finnlands.
???? ???????????? ???????????????? ???????????????????????????????? ???? pic.twitter.com/EuhUUdoT3Q
— Svensk Fotboll (@svenskfotboll) February 26, 2024
Athugasemdir