
Kvennalið Selfoss hefur heldur betur tekist að krækja sér í öflugan leikmann sem kemur til félagsins á lánssamningi sem gildir út júní. Jimena López mun því leika með Selfossi fyrri hluta sumars.
Jimena er 24 ára vinstri bakvörður sem kemur á láni frá OL Reign í efstu deild í Bandaríkjunum. Jimena er búin að missa byrjunarliðssæti sitt hjá Reign og telur félagið að hún geti bætt leik sinn í íslenska boltanum.
Jimena á 29 landsleiki að baki fyrir Mexíkó þrátt fyrir ungan aldur og lék hún með Eibar í efstu deild spænska boltans áður en hún skipti yfir til Bandaríkjanna.
Ljóst er að Jimena verður gífurlegur liðsstyrkur fyrir Selfyssinga enda er það ekki á hverjum degi sem reyndur landsliðsbakvörður úr efstu deild í Bandaríkjunum er fáanlegur.
„Við erum spennt að fylgjast með árangri Jimena í íslenska boltanum. Það er mikilvægt fyrir hana að fá spiltíma í sterkri deild eins og þeirri íslensku. Við búumst við að hún nýti þetta tækifæri til að bæta sig og vonumst til að hún komi til baka sem betri leikmaður," segir Laura Harvey, þjálfari OL Reign.