Það voru skin og skúrir hjá íslensku atvinnumönnunum okkar í Evrópuboltanum í dag.
Nóel Atli Arnórsson byrjaði á bekknum hjá Álaborg sem mætti Hilleröd í dönsku B-deildinni.
Hann kom inn á fyrir meiddan Mikkel Kallesoe á 40. mínútu leiksins, en sá rautt þegar 44 sekúndur voru liðnar af síðari hálfleik með því að brjóta klaufalega á Monday Etim. Það var allt jafnt í liðum þegar hálftími var eftir er leikmaður Hilleröd var sendur í sturtu. Hilleröd náði í jöfnunarmark í uppbótartíma og er Álaborg með aðeins eitt stig eftir tvær umferðir.
Breki Baldursson sat allan tímann á bekknum hjá Esbjerg sem lagði Hvidovre að velli, 2-1, í B-deildinni. Esbjerg sömuleiðis að sækja fyrsta sigurinn á tímabilinu.
Jóhannes Karl Guðjónsson og lærisveinar hans í AB unnu Bronshoj, 1-0, í æfingaleik.
Rúnar Þór Sigurgeirsson hafði betur gegn Nökkva Þey Þórissyni er Willem II og Sparta Rotterdam mættust í æfingaleik. Leiknum lauk með 3-1 sigri Willem II.
Hinrik Harðarson kom inn af bekknum hjá Odd og skoraði í 3-1 tapi gegn Ranheim í norsku B-deildinni. Þetta var annað mark hans fyrir Odd en liðið er með 19 stig í 9. sæti.
Ólafur Guðmundsson byrjaði hjá Álasundi sem vann 2-0 sigur á Moss. Davíð Snær Jóhannsson kom inn af bekknum þegar lítið var eftir af leiknum. Álasund er í 4. sæti B-deildarinnar í Noregi með 22 stig.
Valgeir Lunddal Friðriksson spilaði með Fortuna Düsseldorf sem vann Alemannia Aachen 4-0 í æfingaleik. Brynjar Ingi Bjarnason þreytti frumraun sína með Greuther Fürth í 1-0 sigri á Union Berlín og þá skoraði Willum Þór Willumsson seinna mark Birmingham City í 2-0 sigri á Port Vale. Alfons Sampsted var á bekknum hjá Birmingham en kom ekki við sögu.
Athugasemdir