
Aðalsteinn Jóhann Friðriksson þjálfari Völsungs var hamingju lifandi eftir að hafa tekið Selfoss í góða kennslustund á Húsavík.
Liðin voru í svipaðri stöðu í deildinni fyrir viðureignina en Völsungur er núna þremur stigum fyrir ofan Selfoss eftir sigurinn.
„Við höfum ekki verið að ná í nógu mörg stig upp á síðkastið þannig það var mjög sætt að vinna hér heima á Mærudögum. Við unnum 4-0 í dag og ég held við höfum líka unnið 4-0 á Mærudögum í fyrra. Ágæt hefð ef við getum haldið í hana," sagði brosmildur Alli Jói eftir sigurinn.
„Við spiluðum mjög vel í næstum því allar 90 mínúturnar. Ef ég þarf að kvarta yfir einhverju þá hefði maður viljað fá þetta þriðja mark aðeins fyrr."
Alli Jói hrósaði Sergio Parla Garcia sérstaklega í viðtalinu að leikslokum eftir endurkomu hans í liðið og var staðfastur á því að hugsa bara um einn leik í einu. Hann er ekkert að velta sér upp úr því hversu langt liðið er frá fallsæti eða hversu stutt er í umspilssæti.
Alli hrósaði einnig Jakobi Héðni Róbertssyni, fæddur 2005, sem setti þrennu í leiknum og er þetta hans önnur þrenna í sumar. Hann telur það vera tímaspursmál hvenær Jakob fer að spila á hærra gæðastigi.
Athugasemdir