West Ham United er sagt reiðubúið að hlusta á tilboð í brasilíska miðjumanninn Lucas Paqueta. Þetta herma heimildir Daily Mail.
Ekki voru taldar miklar líkur á að West Ham gæti selt leikmanninn í sumar vegna máls sem enska fótboltasambandið höfðaði gegn honum fyrir brot á veðmálareglum deildarinnar, en samkvæmt Sky verður hann hreinsaður af ásökunum á næstu vikum.
Paqueta, sem er 27 ára gamall, gæti því verið á förum í glugganum, en West Ham vildi áður fá 80 milljónir punda fyrir hann en mun nú sætta sig við 30 milljónir.
Brasilíska félagið Flamengo er sagt mjög áhugasamt um að fá Paqueta aftur heim, en hann lék með liðinu frá 10 ára aldri og yfirgaf það árið 2019 er hann samdi við AC Milan.
Miðjumaðurinn spilaði þar eina leiktíð áður en hann fór til Lyon í Frakklandi þar sem hann kom sér í hóp bestu leikmanna deildarinnar.
West Ham keypti hann fyrir metfé fyrir þremur árum og eins og kom fram í Daily Mail er það reiðubúið að losa sig við hann ef tækifæri gefst.
Athugasemdir