Það komu nokkrir Íslendingar við sögu í síðustu leikjum dagsins víða um Evrópu þar sem Íslendingalið Norrköping gerði jafntefli við Degerfors í efstu deild sænska boltans.
Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson voru í byrjunarliði Norrköping og kom Jónatan Guðni Arnarsson, fæddur 2007, inn af bekknum. Þetta var hans frumraun í efstu deild sænska boltans.
Hvorugu liði tókst að skora svo lokatölur urðu 0-0 en heimamenn í liði Degerfors voru talsvert sterkari aðilinn í dag. Varnarleikur Norrköping var skipulagður og hélt að lokum markinu hreinu til að skila verðmætu stigi.
Norrköping er í neðri hluta deildarinnar, með 19 stig eftir 17 umferðir, fimm stigum fyrir ofan Degerfors.
Í efstu deild danska boltans var Rúnar Alex Rúnarsson fjarverandi vegna meiðsla. Hann brákaði bein í hendi í byrjun mánaðar og verður frá keppni í um það bil viku til viðbótar.
FC Kaupmannahöfn vann 2-0 á heimavelli gegn Vejle og er því með sex stig eftir tvær fyrstu umferðir nýs tímabils.
Degerfors 0 - 0 Norrköping
FC Kaupmannahöfn 2 - 0 Vejle
Athugasemdir