Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   þri 26. október 2021 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hrósar viðbrögðum Jones er Ronaldo fékk gult spjald
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo.
Mynd: EPA
Mörgum þótti Cristiano Ronaldo heppinn að fá ekki rautt spjald gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni síðasta sunnudag.

Ronaldo átti erfitt uppdráttar sem fremsti maður Man Utd. Hann var orðinn vel pirraður undir lok fyrri hálfleiks.

Ronaldo braut á varamanninum Curtis Jones og sparkaði svo til hans þegar búið var að flauta. Hann sparkaði í boltann - ekki í manninn - en það var samt löngu búið að flauta og augljóst mál að Ronaldo var orðinn pirraður.

Leikmenn hlupu upp að Ronaldo og voru alls ekki sáttir við hans hegðun. Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool, fór upp að Portúgalanum og ýtti honum í burtu.

Dermot Gallagher, fyrrum dómari í ensku úrvalsdeildinni, segir að gult spjald hafi verið réttur dómur. Lykilatriði hafi verið að Ronaldo hafi sparkað í boltann.

„Ronaldo var heppinn að boltinn var þarna, það bjargaði honum frá rauðu spjaldi. Það sem hjálpaði líka var að hann stoppaði á réttum tíma. Þetta var ekki það klókasta - það er kraftur í spörkunum - en staðsetningin á boltanum hjálpar honum mikið," sagði Gallagher við Sky Sports.

„Gula spjaldið var réttur dómur á endanum. Það er erfitt að segja til um hvort hlutirnir hefðu verið öðruvísi ef Jones hefði velt sér um á jörðinni og gert mikið úr þessu, en hann gerði vel og var mikill fagmaður í þessu öllu saman."


Hægt er að sjá myndband af atvikinu með því að hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner