Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 27. janúar 2021 19:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segir Kolbein hafa fengið hærri launapakka annars staðar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn í leik með AIK.
Kolbeinn í leik með AIK.
Mynd: Getty Images
Sóknarmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson skrifaði í dag undir eins árs samning við Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni.

Hinn þrítugi Kolbeinn hefur undanfarin tvö tímabil spilað með AIK í sænsku úrvalsdeildinni en hann yfirgaf félagið í lok síðasta árs. Núna samdi hann við erkifjendur AIK í Gautaborg.

Gautaborg hefur orðið þrettán sinnum sænskur meistari í gegnum tíðina en liðið endaði í 12. sæti í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Fredrik Risp, fyrrum leikmaður Gautaborg, starfar núna sem umboðsmaður og hann hjálpaði Kolbeini að ganga frá félagaskiptunum. Hann segir í samtali við Fotbollskanalen að sóknarmaðurinn hefði getað fengið hærri laun annars staðar en ákvað að vera áfram í Svíþjóð til þess að sanna sig þar eftir vonbrigði síðustu ára með AIK.

„Fjárhagshliðin var ekki aðalatriðið. Hefði það verið málið, þá hefði hann verið búinn að skrifa undir annars staðar í heiminum fyrir nokkru síðan," sagði Risp.

Hann segir að Kolbeinn henti vel fyrir það hvernig Gautaborg vilji spila og núna fái hann heilt undirbúningstímabil til að koma sér í gott stand fyrir næsta tímabil. Hann hafi ekki hugsað um það að mikill rígur væri á milli AIK og Gautaborg.

„Það mikilvægasta fyrir Kolbein var að finna gott umhverfi til að komast aftur í sitt besta stand. Gautaborg passar vel fyrir það."

Kolbeinn er markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi ásamt Eiði Smára Guðjohnsen en þeir hafa báðir skorað 26 mörk. Kolbein jafnaði mark Eiðs árið 2019.

Kann vel við Íslendinga í bláu og hvítu
Expressen ræddi við John Pettersson, formann stuðningsmannafélags Gautaborgar, um Kolbein enda gerist það ekki á hverjum degi að leikmaður fari frá AIK yfir til Gautaborgar.

Pettersson fagnar komu Kolbeins. „Hann er góður leikmaður og við fögnum því alltaf að fá góða leikmenn. Þetta eru óvænt skipti en hann kemur inn með eiginleika sem okkur hefur vantað. Hann átti erfitt uppdráttar hjá AIK, en við erum ekkert svekktir yfir því að hann hafi kostað þá peninga og ekki skilað miklu."

„Þetta verður örugglega gott. Ég kann vel við að sjá íslenska leikmenn í bláu og hvítu. Það hefur virkað áður," sagði Pettersson en á meðal íslenskra leikmanna sem hafa staðið sig vel í Gautaborg eru Hjálmar Jónsson og Ragnar Sigurðsson.

Hérna má skoða alla íslensku leikmennina sem hafa spilað fyrir félagið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner