Nýliðar Aftureldingar töpuðu í kvöld 4-1 fyrir Selfoss á heimavelli, í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna.
„Eins og ég sagði við stelpurnar inni í klefa, ef maður ætlar að fá skell þá er bara fínt að fá hann í fyrsta leik og við erum allavega á þeim stað núna að við erum búnar að gera okkur grein fyrir því að lið eins og Selfoss refsar fyrir mistök," sagði Alexander Aron Davorsson, annar af þjálfurum Aftureldingar eftir leik.
Alexander er annars mjög ánægður með stöðuna á liðinu í upphafi móts. „Ég held að þetta sé bara þannig að við erum í ákveðinni uppbyggingu með þetta lið og erum með marga leikmenn sem hafa verið að spila í deild fyrir neðan en þær sáu það allavega hérna í byrjun seinni hálfleiks að þegar við dettum á smá run að þá er erfitt að eiga við okkur og við komum okkur vel inn í leikinn."
Lestu um leikinn: Afturelding 1 - 4 Selfoss
„Það sem má búast við af okkur í sumar er að við munum mæta í alla leiki og gera okkar besta og munum alltaf eflast og eflast. Ég hef bara það mikla trú á leikmönnunum sem við erum með, karakternum í þessu liði, að við bognum kannski en við brotnum aldrei. Það er svona mín tilfinning í þessu."
Næsti leikur Aftureldingar er gegn Þrótti á þriðjudaginn.
„Ég held að það sé bara fínt að fá leik strax eftir þennan leik," sagði Alexander að lokum.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan, þar sem Alexander talar meðal annarrs með breytingar á leikmannahópnum, stemninguna í Mosó, umræðuna um mótlæti og fleira.























