Klopp hefur áhuga á Malen - Hvert fer Osimhen? - Juventus leitar að manni í stað Pogba - Man Utd og Chelsea berjast um brasilískan miðjumann
   fim 27. apríl 2023 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þú þarft að leggja mikið á þig til að vera í þessari stöðu"
Lengjudeildin
watermark Dean Martin, þjálfari Selfoss.
Dean Martin, þjálfari Selfoss.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
watermark Úr leik hjá Selfossi gegn Leikni í Mjólkurbikarnum.
Úr leik hjá Selfossi gegn Leikni í Mjólkurbikarnum.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
watermark Guðmundur Tyrfingsson er nýr fyrirliði liðsins.
Guðmundur Tyrfingsson er nýr fyrirliði liðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
watermark 'Okkar markmið er að vinna eins marga leiki og hægt er, að byggja á því sem við erum búnir að vera að vinna að í vetur og síðustu ár líka'
'Okkar markmið er að vinna eins marga leiki og hægt er, að byggja á því sem við erum búnir að vera að vinna að í vetur og síðustu ár líka'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér finnst tímabilið sem framundan er vera mjög spennandi," segir Dean Martin, þjálfari Selfoss, í samtali við Fótbolta.net en liðinu hans er spáð tíunda sæti í Lengjudeildinni í sumar.

Sjá einnig:
Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeildina: 10. sæti

Deano nefnir að mörg sterk lið séu í deildinni og þetta verði hörkukeppni.

„ÍA er eitt stærsta félag á Íslandi og með mikla sögu. Það verður rosalega gaman fyrir okkur að spila þarna. Grindavík eru búið að styrkja sig mjög vel og það eru miklar væntingar þar. Grótta og Fjölnir spila skemmtilegan fótbolta með ungum leikmönnum. Vestri er með fullt af hæfileikaríkum leikmönnum en þeir verða að spila sig saman. Ég er mjög spenntur fyrir tímabilinu."

Voru á toppnum um mitt tímabil í fyrra
Selfoss byrjaði síðasta tímabil afskaplega vel og var á toppnum eftir níu umferðir. Svo fór að halla undan fæti og endaði liðið að lokum í tíunda sæti.

„Síðasta tímabil byrjaði mjög vel hjá okkur. Sjálfstraustið var mjög gott í hópnum. Við vorum á toppnum eftir fyrstu níu leikina," segir Deano og bætir við: „Svo lentum við í meiðslum og leikmenn fóru í bann. Við þurftum að fá unga leikmenn í liðið sem voru með litla sem enga reynslu í þessari deild. Það var erfitt en við lærðum af því. Við spiluðum mörgum ungum leikmönnum sem eru núna orðnir reynslunni ríkari. Það mun hjálpa okkur á þessu tímabili."

Það hafa orðið nokkrar breytingar á liðinu í vetur. „Það eru alltaf breytingar eftir tímabil, leikmenn koma og fara. Við missum fjóra leikmenn frá síðasta tímabili. Ég hefði viljað að þrír af þessum fjórum leikmönnum væru enn hjá okkur. En svona er fótboltinn."

„Ég er gríðarlega ánægður með þá sem hafa komið inn. Við erum búnir að reyna að fá nokkra í viðbót en það gekk ekki upp. Svona er fótboltinn og við erum ánægðir með það sem við erum með í okkar höndum í dag. Ég hlakka til."

Við nennum ekki að bíða lengur
Selfoss datt úr leik í Mjólkurbikarnum á dögnum en liðið spilaði við Leikni þar. Það var hörkuleikur sem endaði með 1-0 sigri Leiknismanna.

„Leikurinn á móti Leikni gat farið í báðar áttir. Við áttum slárskot og stangarskot. Við fengum nokkur tækifæri til að skora og þeir fengu það líka. Liðið sem skorar vinnur fótboltaleikinn. Þeir skoruðu flott mark. Ég var mjög sáttur með vinnuframlagið og orkuna sem við gáfum í þennan leik. Það var margt mjög lofandi og það voru góð merki um það að við séum alveg tilbúnir til að byrja þetta tímabil," segir Deano en hann segir að menn séu 100 prósent tilbúnir í slaginn.

„Ég held að það séu allir 100 prósent tilbúnir núna. Við nennum ekki að bíða lengur. Okkar markmið er að vinna eins marga leiki og hægt er, að byggja á því sem við erum búnir að vera að vinna að í vetur og síðustu ár líka. Við erum búnir að vera í uppbyggingu. Við viljum vera með fótboltalið á Selfossi sem fólk getur verið stolt af. Við vonum að fólk komi á völlinn til að hvetja okkur áfram."

Skiptu um fyrirliða
Gary Martin var fyrirliði Selfoss á síðustu leiktíð en Guðmundur Tyrfingsson verður fyrirliði í ár.

„Við breyttum um fyrirliða. Við erum alltaf að tala um að ungu leikmennirnir þurfi að taka ábyrgð. Þetta er góður tími til að gefa einum af þessum ungu leikmönnum tækifæri til að leiða félagið okkar," segir þjálfarinn.

„Guðmundur er mikilsvirtur innan félagsins, hann leggur mikið á sig og er alltaf tilbúinn að leggja sitt af mörkum. Hann er vel liðinn í klefanum líka. Þetta er gott tækifæri fyrir fólkið á Selfossi að sjá að þau eru með ungan mann sem mun gefa allt fyrir félagið og fyrir liðið þegar hann fer á völlinn. Hann er frá Selfossi og þetta leyfir líka ungu krökkunum í bænum - sem dreymir um að vera fyrirliði Selfoss einn daginn - að sjá að þetta er mögulegt með mikilli vinnu. Þú þarft að leggja mikið á þig til að vera í þessari stöðu," sagði þjálfarinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner