Manchester-liðin sýna Donnarumma áhuga - Arsenal vill klára kaupin á Eze - Fofana til Everton?
   sun 27. júlí 2025 14:52
Elvar Geir Magnússon
Ágúst Hlyns skoraði strax í fyrsta leik fyrir Vestra
Ágúst Hlynsson er búinn að opna markareikning sinn fyrir Vestra.
Ágúst Hlynsson er búinn að opna markareikning sinn fyrir Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nú er hálfleikur í leik Vestra og ÍBV í 16. umferð Bestu deildarinnar. Vestri er 2-0 yfir í hálfleik en Ágúst Eðvald Hlynsson, sem gekk í raðir félagsins í gær, skoraði seinna markið.

Smelltu hér til að fara í beina textalýsingu.

„MARK!!! Ágúst keyrir á vörn ÍBV, tekur þríhyrning með Diego Montiel og setur svo boltann í fjærhornið! Fyrsti leikurinn hans og fyrsta markið Vestri eru komnir í 2-0!" skrifaði Guðmundur Jónasson í beinni textalýsingu frá leiknum en Montiel skoraði fyrra markið.

Óhætt er að segja að varnarleikur ÍBV leit skelfilega út í báðum tilfellum.

Lestu um leikinn: Vestri 2 -  0 ÍBV

Ágúst kom til Vestra frá AB í Danmörku og fór beint í byrjunarliðið. Daði Berg Jónsson sneri aftur í Víking á dögunum eftir að hafa verið á láni hjá Vestra og kemur Ágúst til með að fylla í skarðið sem Daði skildi eftir sig.

Ágúst er 25 ára gamall og getur leyst flestar sóknarstöðurnar á vellinum.

Hann spilaði með Þór til ellefu ára aldurs áður en hann gekk í raðir Breiðabliks. Hér á landi spilaði hann með Blikum, FH, Val og Víkingi, en erlendis var hann í akademíunni hjá Bröndby og Norwich, ásamt því að hafa leikið með Horsens í dönsku B-deildinni.

Síðustu tvö tímabil hefur hann spilað með AB í Kaupmannahöfn undir handleiðslu Jóhannesar Karls Guðjónssonar. Ágúst hefur spilað 35 leiki og skorað 5 mörk með yngri landsliðum Íslands og á 104 leiki í efstu deild á Íslandi.
Athugasemdir
banner
banner