Ágúst Eðvald Hlynsson opnaði markareikninginn í frumraun sinni með Vestra sem vann langþráðan og mikilvægan 2-0 sigur á ÍBV í 16. umferð Bestu deildar karla á Kerecis-vellinum á Ísafirði í dag.
Vestri skapaði sér betri færi í fyrri hálfleiknum og var Diego Montiel ekki langt frá því að taka forystuna á 10. mínútu en aukaspyrna hans small í stönginni.
Hann stillti miðið tíu mínútum síðar, að vísu með hjálp Mattias Edeland, er hann fékk boltann fyrir utan teiginn, keyrði inn í teiginn og skaut boltanum sem hafði viðkomu af Edeland og í netið. Fyrsta mark Vestra í deildinni í rúman mánuð.
Undir lok hálfleiksins skoraði Ágúst Eðvald, sem byrjaði leikinn aðeins sólarhring eftir að hafa skrifað undir, er hann átti gott þríhyrningsspil með Montiel áður en hann setti boltann í fjærhornið.
Merkilegt mark hjá honum en Vestri en hann hefur nú skorað fyrir fimm félög í efstu deild á Íslandi.
Eyjamenn fundu taktinn snemma í síðari hálfleik en náðu samt ekki að skapa sér nógu hættuleg færi.
Báðir markverðir voru að gera vel á milli stanganna og þá sérstaklega Guy Smit sem átti svakalega vörslu frá Arnari Breka Gunnarssyni undir lok leiks og sá til þess að það yrði ekkert drama á lokamínútunum.
Góður sigur Vestra staðreynd og sá fyrsti síðan 15. júní. Ísfirðingar fara upp í 5. sæti með 22 stig en Eyjamenn áfram í 9. sæti með 18 stig.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Breiðablik | 16 | 9 | 4 | 3 | 28 - 21 | +7 | 31 |
2. Valur | 15 | 9 | 3 | 3 | 39 - 20 | +19 | 30 |
3. Víkingur R. | 15 | 9 | 3 | 3 | 27 - 16 | +11 | 30 |
4. Fram | 15 | 7 | 2 | 6 | 23 - 19 | +4 | 23 |
5. Vestri | 16 | 7 | 1 | 8 | 15 - 14 | +1 | 22 |
6. Stjarnan | 15 | 6 | 3 | 6 | 25 - 26 | -1 | 21 |
7. Afturelding | 15 | 5 | 4 | 6 | 18 - 20 | -2 | 19 |
8. FH | 15 | 5 | 3 | 7 | 25 - 20 | +5 | 18 |
9. ÍBV | 16 | 5 | 3 | 8 | 14 - 23 | -9 | 18 |
10. KA | 16 | 5 | 3 | 8 | 16 - 31 | -15 | 18 |
11. KR | 16 | 4 | 5 | 7 | 36 - 38 | -2 | 17 |
12. ÍA | 16 | 5 | 0 | 11 | 16 - 34 | -18 | 15 |
Athugasemdir