Arne Slot, stjóri Liverpool, segist ekki hafa miklar áhyggjur af þunnskipaðri vörn liðsins og að liðið sé vel mannað fyrir komandi leiktíð.
Liverpool seldi Jarell Quansah til Bayer Leverkusen í sumar og þá meiddist Joe Gomez í æfingaferð liðsins í Asíu.
Einu hreinræktuðu miðverðirnir í hópnum eru þeir Ibrahima Konate og Virgil van Dijk.
Ryan Gravenberch, sem spilaði sem varnarsinnaður miðjumaður á síðustu leiktíð, leysti af í miðverði gegn AC Milan í gær, en hann spilaði þessa stöðu í nokkrum leikjum á síðustu leiktíð.
Slot segir liðið vel mannað en viðurkennir þó að það hafi ekki enn fyllt í skarð Quansah.
„Miðvarðarstaðan veldur okkur ekki áhyggjum. Hvað með breiddina? Ég held að Ryan hafi sýnt að hann sé fær um að spila í þessari stöðu. Hann gerði það líka á síðasta tímabili þó við vitum öll að við viljum heldur nota hann í 'sexunni'. Wata [Endo] getur líka spilað þar og Joe Gomez, sem er aðeins að glíma við smávægileg meiðsli, var líka góður á síðasta tímabili. Við erum með nóg af möguleikum, en það er alveg rétt að Jarell Quansah fór og við höfum ekki enn fundið mann í hans stað,“ sagði Slot eftir leikinn.
Enski landsliðsmaðurinn Marc Guehi hefur verið orðaður við Liverpool í allt sumar og gæti vel farið svo að hann verði keyptur þegar nær dregur gluggalokum.
Athugasemdir