Bayern München er að ganga frá viðræðum við Liverpool um kólumbíska vængmanninn Luis Díaz en þetta herma heimildir Sky Sports í dag.
Liverpool hafnaði 58,5 milljóna punda tilboði Bayern í Díaz á dögunum og mætti þýska félagið með annað tilboð á borðið sem nemur um 69 milljónum punda.
Englandsmeistararnir eru ánægðir með tilboðið og hafa ákveðið að samþykkja það en nú er verið að ganga frá greiðslusamkomulagi.
Díaz, sem er 28 ára gamall, var ekki í hópnum hjá Liverpool sem spilaði æfingaleik gegn AC Milan í Hong Kong í gær og greindi Arne Slot, stjóri félagsins, frá því að hann hafi ekki verið með vegna vangaveltna um framtíð hans.
Liverpool hefur ekki verið viljugt til að selja fastamenn í liðinu í sumarglugganum en Díaz hefur verið mjög skýr með að hann vilji fara og ganga í raðir Bayern og því lítið annað í stöðunni en að verða að ósk leikmannsins.
Díaz gekk í raðir Liverpool frá Porto í janúar árið 2022 fyrir 37,5 milljónir punda.
Þessi sala kemur sér ágætlega fyrir Liverpool sem mun nýta peninginn til þess að fjármagna kaup á leikmönnum í aðrar stöður en Liverpool er í leit að framherja og miðverði.
Athugasemdir