Manchester-liðin sýna Donnarumma áhuga - Arsenal vill klára kaupin á Eze - Fofana til Everton?
   sun 27. júlí 2025 18:52
Jóhann Þór Hólmgrímsson
EM kvenna: England Evrópumeistari í annað sinn eftir sigur í vítaspyrnukeppni
Kvenaboltinn
EM KVK 2025
Mynd: EPA
Mynd: EPA
England 1 - 1 Spánn (3-1 eftir vítaspyrnukeppni)
0-1 Mariona Caldentey ('25 )
1-1 Alessia Russo ('57 )

England er Evrópumeistari annað mótið í röð eftir sigur á Heimsmeisturum Spánar í vítaspyrnukeppni.

Esther Gonzalez komst í gott færi snemma leiks en Hannah Hampton í marki Englands náði að loka á hana. Lauren Hemp komst í svipaða stöðu hinu megin en Cata Coll í marki Spánar gerði vel í að verja með fætinum.

Stuttu síðar brutu Spánverjar ísinn. Ona Batlle átti fyrirgjöf, Lucy Bronze sofnaði á verðinu og Mariona Caldentey komst fram fyrir hana og skallaði boltann í netið.

Lauren James, framherji Englands, var tæp fyrir leikinn en var í byrjunarliðinu. Hún þurfti hins vegar að fara af velli undir lok fyrri hálfleiks og Chloe Kelly kom inn á í hennar stað.

Kelly lét til sín taka eftir tæplega klukkutíma leik þegar hún átti fyrirgjöf og Alessia Russo skallaði boltann í netið og jafnaði metin.

Fleiri mörk urðu ekki skoruð í venjulegum leiktíma og þurfti því að framlengja. Undir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar fékk Spánn gullið tækifæri en Salma Paralluelo hitti ekki boltann úr dauðafæri. Hún fékk annað tækifæri snemma í seinni hálfleik en aftur hitti hún ekki boltann.

Mörkin komu ekki í framlengingunni og grípa þurfti því til vítaspyrnukeppni. Beth Mead steig fyrst á punktinn fyrir England. Hún rann í skotinu, skoraði en snerti boltann með báðum fótum og þurfti að taka spyrnuna aftur. Í þetta sinn varði Coll.

Hampton varði tvær spyrnur frá Spánverjum og Salma Paralluelo setti boltann framhjá. Það var Chloe Kelly sem tryggði Englandi annan Evrópumeistaratitilinn í röð þegar hún skoraði í fimmtu spyrnu Englands.
Athugasemdir
banner
banner